151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu drengja í skólakerfinu.

489. mál
[18:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir svarið. Ég tek líka undir með hv. þingmanni um að ég væri til í að standa hér í allan dag og velta þessu fyrir mér. Ég veit að við kæmumst sennilega ekki að hinum stóra sannleika í málinu. Athyglisvert að hún segi að þetta sé að gerast núna. Það er greinilegt að konurnar eru hreinlega að taka völdin. Hvað er það sem veldur? Er það þessi femíníska barátta sem við höfum verið að kalla eftir í sambandi við jafnræði, að við séum kannski bara búin að komast yfir það markmið, að það sé ekki lengur jafnræði heldur bara orðið misræmi og það halli á hitt kynið? En ég tek undir með hv. þingmanni að þetta snýst ekki um okkur og þá, við verðum einhvern veginn að taka utan um þetta.

Hefur hv. þingmaður kannski velt því upp hvaða afleiðingar það hefur að einstaklingur skuli jafnvel strax í upphafi skólagöngu missa móðinn af því að honum var sett fyrir svo mikið efni að hann veldur því ekki? Hann er ólæs og með kvíða, vanlíðan og depurð. Við horfum upp á það að sennilega er hvergi nokkurs staðar í Evrópu, ef nokkurs staðar í heiminum, sem nokkur börn éta annað eins af ofvirknilyfjum og geðlyfjum vegna kvíða og þunglyndis og depurðar og börnin okkar. Þetta virðast vera samverkandi, samtvinnaðir, ömurlegir þættir sem við horfumst nú í augu við og það virðist ekkert lát vera á því, bara ekki neitt. Þannig að ég vil aftur koma þessu: Gætum við kannski stytt okkur leið pínulítið og byrjað a.m.k. á því að bjóða 6–10 ára börnum upp á það að læra að lesa, skrifa og reikna áður en þau fara að læra landafræði, sögu og eitthvað annað sem er þeim stundum ansi erfitt, sér í lagi ef þau kunna ekki að lesa?