151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

velferð dýra.

543. mál
[19:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir fyrirspurnina. Auðvitað ekki. Svarið er ósköp einfalt. Hvað eigum við gera öðruvísi? Við sjáum núna stórkostlega ræktun á hrossum. Það er ræktun hrossa, verðlaunahesta sem seldir eru dýrum dómum út um allan heim. Ég efast um að þeir sem eru í því starfi séu í því að dæla blóði af hestunum sínum eða merum með folaldi. Við getum og eigum að finna aðra leið. Siðaðar þjóðir eru búnar að loka á þetta. Ætlum við áfram að vera sóðarnir í þessu? Ég get ekki séð og ég fæ ekki skilið hvernig hægt er að réttlæta þetta. Horfum á það í hvaða tilgangi þetta er gert. Það er til að ná í hormón til þess að dæla því í annað dýr til þess að það geti framleitt meira kjöt. Við þurfum ekki á meira kjöti að halda. Hver er þá tilgangurinn? Að búa til kjötfjall? Ég bara sé ekki þennan tilgang.

Ég spyr hv. þm. Þórarin Inga Pétursson: Finnst honum eðlilegt að verið sé að búa til þetta hormón til þess að dæla í gyltur til að framleiða fleiri grísi meira að segja án þess að þær séu tilbúnar til þess? Þetta er hormón til þess að gera þær fyrr tilbúnar til að eiga jafnvel fleiri. Finnst honum það eðlilegt í því ástandi sem er í dag? Finnst honum þetta bara sjálfsagður hlutur? Og þá bara í þeim tilgangi að einhver og jafnvel þriðji aðili sé að græða eitthvað, fyrirtæki sem er að framleiða þetta hormón?