151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

velferð dýra .

543. mál
[19:34]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar til að taka til máls í þessu máli sem talsmaður dýravelferðar og dýraverndar, en vil síður fara í hnútukast við bændur sem langflestum er annt um sín dýr, þeir hugsa vel um þau að öllu leyti og eru til fyrirmyndar þegar kemur að dýrahaldi. En mig langar samt til að halda þessari umræðu við staðreyndirnar. Það eru staðreyndir sem komu fram fyrir um ári síðan í fyrirspurn sem hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sendi inn til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um blóðmerahald. Þessi fyrirspurn vakti gríðarlega mikla athygli á máli sem legið hefur í hálfgerðu þagnargildi um árabil. Upplýsingarnar sem komu fram í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurninni voru nokkuð sjokkerandi vegna þess að þar kemur fram að hryssublóði hafi verið safnað úr fylfullum hryssum í kjötframleiðslu hér á landi í um 40 ár. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun árið 2019 stundi 95 aðilar það að framkvæma blóðtöku úr hrossum til framleiðslu afurða og að þessir 95 aðilar séu með 5.036 hryssur í þeim tilgangi.

Það sem vakti kannski sterkustu viðbrögðin við þeim upplýsingum sem komu fram í þessu svari við fyrirspurninni var að hormónið sem verið var að vinna úr blóði hryssa var, eins og fram hefur komið í þessari umræðu, notað í þeim tilgangi til að samstilla gangmál dýra í svínarækt. Það að tekið sé blóð úr fylfullum hryssum til að hægt sé að vinna dýrmætt hormón úr þeim sem síðan er gefið svínum til að auka virði kjötsins og kjötframleiðsluna, orkar nú ansi tvímælis á ansi marga. Ég efast ekki heldur um að margir bændur séu ekkert sérstaklega fylgjandi því að merar séu gerðar fylfullar í þeim tilgangi að hægt sé að auka afköst í svínarækt. Og þó að það hafi ekki komið fram í svari hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar hann var spurður í hvaða Evrópuríkjum blóðmerahald hafi verið aflagt, þá kemur fram í svarinu að ráðuneytið hafi ekki upplýsingar um blóðmerahald í öðrum ríkjum. Það er nokkuð sérstakt að hafa ekki aflað sér upplýsinga um það. En það hefur samt sem áður komið fram í einu stærsta tímariti Svíþjóðar á sviði náttúruverndar að framleiðsla á þessu hormóni hafi þrefaldast síðan árið 2009. Það hefur verið umræða um það undanfarna mánuði á Evrópuþinginu að banna innflutning á hormóninu frá Suður-Ameríku eftir að þar varð vitundarvakning í þessum málum.

Ég hef fullan skilning á því að greinargerðin við frumvarp hv. þm. Ingu Sæland og meðflutningsmanna hennar stuði einhverja bændur, hún geti stuðað einhverja þingmenn líka vegna þess að þar eru náttúrlega staðhæfingar sem eru ansi sjokkerandi. En ég held að við verðum að horfa á þetta mál út frá dýraverndinni og dýravelferðinni.

Hér voru lög samþykkt í mars 2013, sem voru tímamótalög, lög um velferð dýra. Sömuleiðis var árið eftir samþykkt á Alþingi reglugerð um velferð hrossa. Þetta voru tímamótalög og tímamótareglugerðir sem samþykktar voru hér í þessum sal. En lög um velferð dýra, nr. 55/2013, hljóta ávallt að vera í endurskoðun og við hljótum að vilja gera tillögur við lög um velferð dýra til þess að bæta þau. Ég myndi telja að bann við töku blóðs úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vöru til sölu falli einmitt að því að bæta lögin um velferð dýra.

Mig langar líka til að minna á að í þeim lögum er ekki fjallað um þessa starfsemi og ekki heldur í reglugerð um velferð hrossa, eins og ég var að nefna, og það er tækifæri til þess að við bætum þau lög í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið. Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé og þrátt fyrir að um 95 aðilar hafi verið að stunda þessa iðju árið 2019, samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun, og að Matvælastofnun hafi gert athugasemdir við þrjá þeirra, sem hættu þá strax þeirri iðju á viðkomandi bæjum, þá er þessi iðja samt sem áður af því tagi að hún veldur heitum tilfinningum og gerir það að verkum að fólki finnst þetta vera ansi langt gengið í því að nýta fylfullar merar og blóð úr þeim til að auka afköst í svínarækt.

Herra forseti. Ég held að það sé fullt erindi og tilefni til þess að við stígum skrefið til fulls og bönnum þessa iðju. Að því sögðu þá veit ég líka, eins og hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson hefur bent á, að það er gott eftirlit með matvælaframleiðslu úti um allt land og það er gott eftirlit með framkvæmd laga um velferð dýra, eins og sést á því að á þremur bæjum var þessi iðja stöðvuð. Það er gott og það er vel og við eigum að styðja við hið góða eftirlit með lögum um velferð dýra. En við eigum líka að vera opin fyrir því að hægt sé að bæta það. Þetta frumvarp held ég að sé til þess fallið til að breyta lögunum til hins betra og ekki síður í þágu dýravelferðar og dýraverndar.

Ég er þess fullviss að bændur, eins og hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson er fulltrúi fyrir hér á þingi, séu jákvæðir fyrir því að styðja og bæta lög um velferð dýra að öllu leyti. En ég skil líka vel þegar bændum þykir að sér vegið og þeir sakaðir sem stétt um að iðka einhverja iðju sem ekki fellur að lögum. Það skil ég vel. En um leið tel ég að við þurfum að hafa hugrekki til þess að velta þessu vandlega fyrir okkur, vegna þess að tímarnir breytast líka og siðferðismál og álitamál þegar kemur að dýravelferð hafa þróast og þroskast. Það er orðin meiri meðvitund, sérstaklega þegar kemur að kjötrækt og þegar kemur að því að nýta dýr við hvers kyns iðju, sérstaklega hormónastarfsemi, sem fellur ekki vel að almennri hugmynd fólks um að rækta kjöt á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt o.s.frv. Þessi iðja fellur ekki mjög vel að þeim hugmyndum.

Herra forseti. Ég tel að þetta frumvarp sé gott, það sé til þess fallið að þingheimur eigi að samþykkja það og skoða vel og vandlega. En um leið getur vel verið að hv. umhverfis- og samgöngunefnd, sem málið gengur til, myndi íhuga í nefndaráliti sínu að betrumbæta greinargerðina í þá veru að sætta sjónarmið þegar sumum þykir vera vegið að bændastéttinni. En ég styð þetta mál og styð allar góðar framfarir þegar kemur að lögum um velferð dýra.