152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

fjármálafyrirtæki o.fl.

533. mál
[12:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég fjallaði um það að hér væri um ansi yfirgripsmikið frumvarp að ræða en kannski ekki endilega að það hefði eins mikil áhrif og umfangið benti til. Alltaf þegar svona stór og löng frumvörp koma fram er erfitt að velja úr hvaða atriði skipta máli. Hæstv. ráðherra fjallaði m.a. um starfskjör, starfskjarastefnu og kaupauka og það er nokkuð sem mikið hefur verið rætt í þessum geira allt frá hruninu. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að sett séu skilyrði í lögum, ekki bara í reglugerðum, þannig að hægt sé að passa að ekki séu til staðar hvatar til að brjóta reglur eða láta hlutina líta vel út á pappír vegna þess að kaupaukarnir komi þar inn. Það er líka mikilvægt í frumvarpinu að verið er að innleiða jafnlaunavottun eða jafnlaunastefnu í starfskjarastefnu fjármálafyrirtækja; það er nokkuð sem skiptir miklu máli að sé á sem flestum sviðum samfélagsins.

Það er ekki bara verið að tækla stóru fjármálafyrirtækin heldur eru hér líka breytingar á ýmsum reglum um smærri fjármálafyrirtæki og það er mikilvægt að hlutir eins og starfskjör og annað séu tæklaðir. En þær eru líka mjög mikilvægar, og það er kannski það sem við áttum okkur minnst á, þær breytingar sem verið er að gera hér og þar í lagaumhverfinu til að tryggja aukið eftirlit, til að tryggja aukinn stöðugleika fjármálafyrirtækjanna og til að tryggja aukið gagnsæi þegar kemur að því hvernig fjármálafyrirtæki vinna og virka. Talandi um gagnsæi þá langar mig að vísa því til þeirrar nefndar sem fær málið til sín, sem er væntanlega annaðhvort efnahags- og viðskiptanefnd eða fjárlaganefnd, að skoða gagnsæi í kostnaði fyrir fjármálafyrirtæki af öllum tegundum og stærðum en skortur hefur verið á því að neytendur fái góða innsýn í það hvar verið er að taka kostnað fyrir hina ýmsu hluti.

Við getum tekið peninga sem við leggjum í séreignasjóð sem dæmi. Ef 1% kostnaður er tekinn á hverju ári frá umsjónaraðila séreignasjóðsins — við byrjum kannski tvítug að aldri að setja pening þar inn en síðan líða 40 ár þar til við ætlum að taka þá út — getur það verið spurning um margar milljónir. Við sem erum nógu gömul og munum eftir auglýsingunum um vexti og vaxtavexti vitum, og lærðum það kannski líka í skóla, að kostnaður á hverju ári hefur áhrif á höfuðstólinn og síðan koma vextir næsta ár og næsta ár. Það er því miður þannig að allt of mikið, og þetta er nokkuð sem yfirvöld víða um heim hafa verið að skoða, er um þennan falda kostnað á hinum ýmsu stöðum í fjármálakerfinu sem kostar neytendur oft stórfé án þess að þeir viti virkilega af því.

Eins og hæstv. ráðherra benti á er hér verið að innleiða fullt af reglugerðum frá Evrópusambandinu en margar þeirra eru næstum því orðnar áratugagamlar. Það hefur verið farið í mál við okkur út af því að við erum ekki nógu dugleg við að klára þær. Það er von mín að vel verði farið í gegnum þessi frumvörp en líka að við tryggjum að það eftirlit, neytendavernd og annað sem kemur með þessum reglugerðum fari sem fyrst inn í íslensk lög neytendum til góða.