152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:36]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sporin hræða í þessu eins og mörgu öðru. Mig langar aðeins að rifja upp þá sorgarsögu sem átti sér stað í Helguvík þar sem talið var að öllum uppfylltum skilyrðum hefði verið náð. Þar hafði Umhverfisstofnun m.a. komið að sem og Skipulagsstofnun, starfsleyfi veitt á grundvelli umsagna þeirra og umhverfismat hafði farið fram. En þrátt fyrir það fór allt í skrúfuna. Stundum er verið að hlæja að því, segja að það þurfi að fækka eftirlitsaðilum, en þegar um svona stóra atvinnustarfsemi er að ræða eins og hér er nefnd, fiskeldi, sem getur haft verulega þýðingu peningalega séð, þá myndast auðvitað ákveðinn þrýstingur á að veita heimildir fyrir því að koma þeirri starfsemi í gang fljótt og vel. En með þessu sýnist mér að verið sé að búa þannig um hnútana að allur almenningur sé skilinn eftir, þannig að umsagnir verði ekki settar fram þarna, heldur geti einhverjir pólitískt kjörnar heilbrigðisnefndir haft með þetta að gera og ráðið þessu og þrýstingur á þær stjórni þessu. Erum við ekki á rangri leið með því að gera slíkar undantekningar?