152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:38]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held ég geti tekið heils hugar undir áhyggjur hv. þingmanns. Eins og þetta blasir við mér þá býr þetta frumvarp eiginlega til umhverfi, þ.e. laga- og regluumhverfi, sem er þannig að starfsemi getur fengið í raun bráðabirgðaheimild, þótt það hafi ekki tekist að klára almennilegt umhverfismat, því að það er mikið í húfi. En hvað gerist svo ef starfsemi fellur í rauninni á umhverfismatinu, ef svo má segja? Þá er ósköp lítið við því að gera af því að það er svo mikið í húfi og allt er farið af stað. Þannig að með þessu frumvarpi er verið að búa til umhverfi þar sem er gengið út frá því fyrir fram að lagfærða umhverfismatið hljóti að leiða til þess að varanlegt leyfi verði veitt, eins og það sé einhvern veginn hægt að sjá inn í framtíðina. Við eigum auðvitað eftir að fá málið inn í nefnd og fá umsagnir um það og glöggva okkur vel á þessu, en mér sýnist við fyrstu yfirferð að þetta sé ofboðslega vont mál. Ég fæ ekki betur séð.