152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:13]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég var í góðu skapi þegar ég fór heim að sofa í gær því það virtist hafa myndast þverpólitísk sátt um það í þingsal að nú yrði gengið rösklega til verks og sett á fót rannsóknarnefnd Alþingis samkvæmt lögum um rannsóknarnefndir Alþingis til að fara yfir alla þætti þessarar bankasölu. Síðan sú samstaða virtist hafa náðst hér á þingi hafa í rauninni komið fram upplýsingar sem bregða enn ljótara ljósi á það sem gerðist. Það hefur komið fram að eigendur og starfsmenn umsjónaraðila útboðsins voru sjálfir að kaupa. Þetta hefur stjórnarformaður Bankasýslunnar, sem er einmitt trúnaðarvinur hæstv. fjármálaráðherra, viðurkennt að sé afar óheppilegt. (Forseti hringir.) Núna hefur Sigríður Benediktsdóttir stigið fram og beinlínis fullyrt (Forseti hringir.) að lög hafi verið brotin og þá allt í einu virðist vera komin ordra (Forseti hringir.) að ofan til þingmanna um að það sé bara Ríkisendurskoðun, (Forseti hringir.) sem er eiginlega hálf veikluð eftir óeðlileg afskipti löggjafans og framkvæmdarvaldsins af stofnuninni, sem eigi að sjá um þetta.