152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ítreka fyrri beiðni mína um að gert verði hlé á þessum þingfundi. Það er gríðarlega mikilvægt að hér haldi ekki áfram umræða um hollustuhætti og mengunarvarnir, að hér haldi ekki áfram umræða um einhver fjármálabix eða hvaðeina sem hæstv. forseta dettur í hug að setja hér á dagskrá. Nú gerum við hlé á þessum þingfundi af því að við erum að tala um miklu stærri mál sem varða þjóðarhag. Við verðum að fá stjórnarliða að borðinu til að skilja alvarleika þess að hér kemur einn af öðrum fram og talar um að lög hafi verið brotin í þessu máli þegar Bjarni Benediktsson tekur ákvörðun um að selja hluta í Íslandsbanka sérstökum vildarvinum sínum og fjölskyldumeðlimum. Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir, frú forseti, og það verður að taka þetta alvarlega. (Forseti hringir.) Það verður að taka það alvarlega að við komum okkur saman um að skipa hér (Forseti hringir.) rannsóknarnefnd Alþingis en ekki einhverja silkihanskameðferð. Tökum nú hlé á þessum þingfundi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)