152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[14:29]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að þylja smá upp. Það er verið að selja eigur ríkisins. Það er verið að selja eigur þjóðarinnar til valinna? Hér eru nokkur atriði:

Það eru gefnar villandi upplýsingar til þingsins. Söluaðilar fengu sjálfir að kaupa. Það voru margir litlir aðilar sem fengu að kaupa þvert á loforð. Margir umdeildir aðilar sem grafa undan trausti og fylgir orðsporsáhætta. Menn sem sæta rannsókn er boðið að kaupa þrátt fyrir að traust sé lykilstef. Það er ekki sett neitt ákvæði um lágmarkshlut. Verðið er of lágt. Þátttakendur hafa sjálfir gagnrýnt ferlið. Nánir ættingjar ábyrgðaraðila keyptu. Söluaðilar fengu frjálsar hendur um hverja var hringt í. Gríðarleg skekkja á milli fagfjárfesta og einkafjárfesta. Verulegar efasemdir eru um að allir sem keyptu uppfylli skilyrði um að teljast hæfir fjárfestar. Aðilar kaupa pínulitla hluti með afslætti sem var rökstuddur með því að það væri verið að selja stóra hluti.

Þetta eru 13 atriði og þetta er ekki tæmandi listi yfir það sem er verið að gagnrýna, þetta útboð sem menn kalla vel heppnað útboð og eru bara í skýjunum með. Núna, eftir athugasemdir Sigríði Benediktsdóttur, sem sat í rannsóknarnefnd Alþingis (Forseti hringir.) eftir bankahrunið, þá hljótum við að taka þetta upp (Forseti hringir.) með meiri þunga en við höfum gert og við hljótum að gera hlé á þessum þingfundi til að ræða framhaldið. (Forseti hringir.) Við getum ekki farið í páskafrí með svona sleifarlag hangandi yfir okkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (DME): Enn og aftur minnir forseti á að ræðutími undir liðnum fundarstjórn forseta er ein mínúta.)