152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:05]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er á sömu slóðum og áðan. Mig langar að biðja hæstv. forseta að beita sér fyrir því að fundi verði frestað svo að hægt sé að koma á fundi þingflokksformanna og ræða um það hvernig það verður ákveðið hér á hinu háa Alþingi að stofna rannsóknarnefnd um sölu á ríkishlutum í Íslandsbanka. Við höfum ekki undan að lesa fréttir af því sem misfórst í þessu ferli. Álit fólks eins og Sigríðar Benediktsdóttur, sem sat í rannsóknarnefnd Alþingis vegna bankahrunsins, segir meira en þúsund orð um stöðuna í þessu máli. Ég bið hv. þingmenn sem styðja þessa ríkisstjórn, skyldu þeir heyra til mín í húsinu, að hugsa nú um hag okkar allra, hugsa um hag almennings og huga að því hvernig við getum eflt traust á bankakerfinu. Ef við setjum ekki af stað rannsókn mun traustið hrynja og við megum ekki við því.