152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:35]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið af því að það styður þá ályktun sem ég hef dregið af lestri frumvarpsins, að það sé í raun ógjörningur að sjá að almenningur hafi raunhæfa möguleika á að koma að veitingu leyfis til bráðabirgða, þ.e. að skila inn athugasemdum um það innan þess stutta tíma sem gefinn er. Ein vika er mjög stuttur tími. Og eins og hv. þingmaður nefndi erum við oftast nær að tala um félagasamtök einstaklinga sem skila inn athugasemdum íbúa og gera það auðvitað kauplaust og í sínum frítíma á meðan fyrirtækin sem standa fyrir framkvæmdinni eru á allt öðrum stað og eru búin að vera að undirbúa téða framkvæmd um árabil, oftast nær. Þetta veldur mér áhyggjum og ég veit að þetta verður tekið upp í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og þarf að skoða mjög gaumgæfilega. Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður nefndi, að gildistími svokallaðs bráðabirgðaleyfis til eins árs, sem síðan má endurútgefa einu sinni, segir okkur að praktískt séð gæti verið um tveggja ára leyfi að ræða, þ.e. leyfi sem dugar í tvö ár. Það er of langur tími, frú forseti. Aftur kem ég að því, í umræðunni um þetta frumvarp, hvort það sé yfir höfuð brýn nauðsyn á því að geta veitt bráðabirgðaleyfi. Er ekki betra að gera þetta þannig að öll skilyrði séu uppfyllt, mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sé lokið, það mat sé gallalaust og það sé í raun búið þannig um vinnubrögð og verklag að ekki sé nauðsynlegt að hafa heimild fyrir bráðabirgðaleyfi?