152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég held einmitt að sú hlið málsins sem snýr að þátttökurétti almennings sé mögulega stærsti vandinn við þetta mál. Við þekkjum það vel hversu illa hefur gengið að fullgilda og lögfesta Árósasáttmálann hér á landi. Það er enn ekki komið. En svo birtist það líka í smáatriðum eins og því að þetta frumvarp hér er til komið vegna kvörtunar Landverndar og fleiri til ESA. Bráðabirgðaálit ESA kom fram í apríl 2020. Í september 2020 birtast drög að frumvarpinu á samráðsgátt stjórnvalda og Landvernd bregst við þar með umsögn. Síðan kemur endanlegt álit ESA í kringum áramótin 2021/2022 og þá drífur ráðuneytið sig í að fullklára þetta frumvarp og hendir því á samráðsgáttina, ég man ekki einu sinni hvaða dagsetningar voru á því, 15. desember var það sett í samráðsgáttina með vikufresti, að ég held. Það voru ein eða tvær vikur sem fólki voru gefnar til að bregðast við. Landvernd bara tók ekki eftir þessu máli, enda ekki með fólk í fullri vinnu við að vakta samráðsgátt stjórnvalda. Hefði verið svo mikil ofrausn af ráðuneytinu að splæsa í eitt símtal til Landverndar til að spyrja hvort þau vildu eiga smásamráð um frumvarp sem var samið til að bregðast við kvörtun Landverndar? Ráðuneyti hafa gert annað eins. (Forseti hringir.) En þetta segir einmitt dálítið mikið um það hversu lítils virði samráð við samtök sem gæta hagsmuna almennings og náttúrunnar er stundum í Stjórnarráðinu.