152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[16:07]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er mikilvægt að halda því til haga þegar við erum að tala annars vegar um rannsóknarnefnd Alþingis og hins vegar um Ríkisendurskoðun, að Ríkisendurskoðun fór yfir söluna á Búnaðarbankanum í tvígang, 2003 og 2006. Í millitíðinni höfðu borist nýjar upplýsingar frá Vilhjálmi Bjarnasyni og í bæði skiptin var það gefið út að það hefði ekkert verið neitt sérstaklega mikið athugavert við söluna. Síðan er stofnuð rannsóknarnefnd um nákvæmlega sama mál og þá kemur öll drullan upp á yfirborðið, eins og við þekkjum. Þá var ríkisendurskoðandi spurður um hvort hann stæði við fyrra mat sitt á bankasölunni. Ríkisendurskoðandi sagði þá að hann gerði það en sagði síðan:

„Breytir engu í því sambandi þó rannsóknarnefnd Alþingis hafi nú á grundvelli upplýsinga og ábendinga, sem bárust umboðsmanni Alþingis sl. vor undir þeim formerkjum að hann gætti trúnaðar um uppruna þeirra, og á grundvelli víðtækra rannsóknarheimilda sinna …“

Þannig að það liggur bara nákvæmlega fyrir að ríkisendurskoðandi sjálfur hefur viðurkennt að hann hafi komist að „vitlausri niðurstöðu“ vegna þess að hann hafði ekki fullnægjandi gögn sem rannsóknarnefndin hafði hins vegar síðar. Þetta finnst mér algerlega ramma inn allt það mikilvægi að það sé rannsóknarnefnd sem fari yfir þetta og að í leiðinni höldum við því þá til haga að það er líka skjalfest og vottað að ríkisendurskoðandi sjálfur hefur bent á það að rannsóknarnefnd hafi tæki og tól sem ríkisendurskoðandi hafi ekki. (Gripið fram í: Heyr, heyr, mjög gott.)