152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:34]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Fjármálaráðherra hefur verið tíðrætt um samráð við Alþingi en ég vil nú meina það að samráð við þetta Alþingi hafi í rauninni eiginlega ekki verið neitt. Ég sit í efnahags- og viðskiptanefnd og þar var tiltölulega fljótt ljóst að við vorum ekkert að fara að ræða eitt eða neitt. Þarna mættu aðilar frá fjármálaráðuneytinu, frá Bankasýslunni, frá Kauphöllinni og þeir hljómuðu svona eiginlega eins og sértrúarsöfnuður að fara með trúarmöntruna sína. Ég spurði: Hvernig á að tryggja dreift eignarhald þegar þið vitið ekki einu sinni hverjir standa á bak við sjóði sem kaupa? Kannski eru það bara þeir sömu sem eru að kaupa í Arion banka. Það var gert lítið úr því. Það væri svo gott regluverkið. Ég spurði líka: Hvernig getið þið tryggt að útrásarvíkingarnir komi ekki bara til baka með peningana sem þeir náðu úr bönkunum fyrir hrun og kaupi bankann aftur? Það var líka gert lítið úr því. Það hvarflaði samt ekki að mér að útrásarvíkingarnir yrðu hreinlega boðnir velkomnir (Forseti hringir.) og það væri bara alveg ljóst, það væri ekki einu sinni feluleikur í kringum að þeir væru að kaupa. (Forseti hringir.) Ekkert í þessu kemur mér á óvart.