152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Fyrst má ég til með að biðja stjórnarliða að leggjast ekki svo lágt, eins og þau hafa gert hér ítrekað, að halda því fram að við séum að lýsa einhverju vantrausti á Ríkisendurskoðun. Við erum einfaldlega að benda á að klúðrið í útboði Íslandsbanka er af þeirri stærðargráðu og þess eðlis að verksvið Ríkisendurskoðunar nægir einfaldlega ekki til að ná utan um það. Þetta er bara það sem gerist þegar Sjálfstæðisflokknum er hleypt í að einkavæða banka. Þá duga ekki hefðbundin ráð til að skera úr um það heldur þarf rannsóknarnefnd, því miður. Þess vegna höfum við sum vit á því að hleypa þeim ekki í fjármálaráðuneytið. Í gær sagði þingflokksformaður Vinstri grænna að ef hugmynd Bjarna Benediktssonar um skoðun Ríkisendurskoðunar væri ekki nóg þá tæki hann heils hugar undir með þeirri hugmynd að setja á fót sérstaka rannsókn í málinu, (Forseti hringir.) bara heils hugar. Það fylgdi ekki máli að það væri hugur Bjarna Ben. sem réði því hvort hann tæki undir.