Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

sjúkratryggingar.

679. mál
[17:06]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég vil enn og aftur þakka hv. þingmanni fyrir sína framsögu hér áðan því að það er afar mikilvægt fyrir alla landsmenn að ræða þetta málefni, þ.e. samningaviðræður og mikilvægi samninga við sérfræðilækna og þá þjónustu sem þeir veita. Í svari hv. þingmanns við andsvari mínu hér áðan þá var sú sem hér stendur spurð hversu lengi ég, stjórnarliðar og hæstv. heilbrigðisráðherra ætluðum að bíða þar til lausn yrði fundin á núverandi stöðu. Svarið er nú ósköp einfalt: Við erum ekkert að bíða. Það eru samningaviðræður í gangi og því vísa ég þessum upphrópunum bara beint til föðurhúsanna. Við erum í stöðugu samtali og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sagt þetta vera eitt af sínum forgangsmálum, þ.e. að ná samningum við sérfræðilækna.

En þegar við ræðum þessi mál, málefni sérfræðilækna, er líka afar mikilvægt að það komi fram að við erum með sérfræðilækna hjá ríkisreknum stofnunum og síðan eru líka sérfræðilæknar hjá heilbrigðisstofnunum víða um land sem eru sjálfstætt starfandi. Staðan er vissulega þannig að það þarf að bæta úr og það er í rauninni algerlega óásættanlegt að þessi aukakostnaður sem lagður er á heimsóknir, hvort sem það er í móttöku til sérfræðilækna eða vegna skurðaðgerða, skuli eingöngu falla á sjúklingana sjálfa. Við erum í grunninn alveg sammála því að við viljum veita heilbrigðisþjónustu öllum íbúum óháð efnahag. En við verðum líka að átta okkur á því að það er líka kostnaður við að reka heilbrigðisþjónustu. Við verðum að geta veitt þá þjónustu sem er verið að veita á viðeigandi máta.

Við sjáum að laun hafa hækkað verulega síðan samningar við sérfræðilækna runnu út og efniskostnaður líka. Sérfræðilæknar eiga ekki eingöngu að taka þetta til sín. Þessi kostnaður hefur líka aukist vegna þess að þetta er launakostnaður hjá riturum, í mörgum tilfellum líka hjúkrunarfræðingum og svo þarf einnig að reka þessar stofnanir og svo er annar rekstrarkostnaður sem hefur hækkað. Til að mæta þessum kostnaði hafa læknar og stofnanir leitað leiða og neyðst til að fara í úrræði á borð við komugjöld og fleira. Við megum alveg eflaust rökræða hér með hvaða hætti þetta er gert og hvaða tölur eru settar á þetta aukagjald, því að líkt og kom fram í ræðu hv. þingmanns hér áðan að þá eru upphæðirnar mismunandi og aðferðafræðin eflaust jafn margvísleg og stofnanirnar.

En það er líka mikilvægt að hafa það í huga að þessar aðstæður sem hafa skapast — ef sérfræðilæknar hefðu ekki gripið til þessa úrræðis hefði jafnvel komið til að þeir hefðu þurft að loka dyrum sínum. Jú, jú, það eru biðlistar og alveg nóg af þeim, því miður, og við viljum vinna á þeim. En hins vegar er það líka mikilvægt að þeir sem veita þessa þjónustu sjái fram á að þeir geti það hreinlega. Þá kemur einmitt að þessum samningum, hversu mikilvægir þeir eru. Ég held við séum öll sammála um hvaða þjónustu við viljum veita og með hvaða hætti en hins vegar er ég ekki sammála því sem er lagt hér fram, að gerðardómur gæti verið ein lausnin í málinu.

Hvað skal segja meira? Ég held alla vega að það sé afar mikilvægt að við náum samningum og ég treysti því að hæstv. heilbrigðisráðherra, sem leggur ríka áherslu á að ná samningum við sérfræðilækna, nái samningum og þá getum í rauninni við nýtt þá þjónustu sem er í boði frá sérfræðilæknum áfram á sama hátt og hefur verið gert og þá geti allir Íslendingar nýtt sér heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.