Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 67. fundur,  22. feb. 2023.

stjórn fiskveiða.

105. mál
[17:52]
Horfa

Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir skelegga framsögu eins og hennar er von og venja. Rökin eru skýr, að fjárfesting þeirra sem stunda strandveiðar nýtist betur og þeir hafi aukið frelsi til að ákveða hvenær þeir haga sínum veiðum í samræmi við aðstæður, hvort sem það eru veðurskilyrði eða veiðiskilyrði að öðru leyti eða bara þeirra eigin geta, hvenær bátar þeirra eru tilbúnir, að þeir hafi aukið frelsi til að ákveða hvenær veiðar fara fram.

Þegar ég velti fyrir mér mótrökunum og reyni að finna þau þá skoðaði ég t.d. lögskýringargögn með lögum þegar þau voru sett á sínum tíma. Ég gaf mér ekki tíma til að kafa mjög ítarlega í það, en ég sé hvergi sérstakar ástæður gefnar fyrir þessu takmarki, af hverju þessar veiðar eru ekki leyfðar á þessum tilteknu dögum. Hins vegar fann ég rök, af því að hv. þm. Inga Sæland kom inn á það að frumvarpið hefði verið lagt fram áður. Þá hafa stundum borist umsagnir og þegar þetta frumvarp var lagt fram í fyrsta sinn þá barst m.a. umsögn frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi þar sem þau sýna bara mjög vel á spilin varðandi afstöðu sína til strandveiðanna. Í þessari umsögn segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu er lagt til að fellt verði á brott úr lögum ákvæði um að óheimilt sé að stunda strandveiðar föstudaga, laugardaga og sunnudaga. Að mati samtakanna mun þessi aðgerð grafa undan sóknarstýringu strandveiðanna. Ekki verður betur séð en að sá afli sem þessum bátaflokki er ætlaður geti þá náðst fyrr á veiðitímabilinu, sem skapar þrýsting á að veiðar verði ekki stöðvaðar við þær aðstæður þegar heildarafli hefur náðst. Þær aðstæður leiða í kjölfarið til þrýstings á flutning meiri aflaheimilda til strandveiðiflotans á kostnað annarra sem fiskveiðar stunda. Þessar afleiðingar eru því miður þekktar.“

Þetta er svona helsti grundvöllur andstöðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um þetta frumvarp á sínum tíma. Þeir óttast bara að missa spón úr sínum eigin aski yfir til strandveiðanna, sem eru akkúrat settar upp í þeim tilgangi að vinna gegn samþjöppun sem orðið hefur í sjávarútvegi og færa aðeins tekjurnar og tekjumöguleika til einstaklinga og til byggðanna um landið. Þannig að þegar ég sé þetta þá hugsa ég bara: Er þetta ekki bara hið besta mál? Er kannski bara gott að þessi samtök séu á móti þessu af þessum ástæðum? (IngS: Þá erum við að gera eitthvað rétt.)— Já. Er þá ekki bara óhætt að vera ófeiminn við að viðurkenna að þetta skapi þennan þrýsting og það sé bara jákvætt? Þannig að fyrir mitt leyti þá er þetta jákvætt mál í alla staði og ég sé sér í lagi enga sérstaka hættu fólgna í því að samþykkja þetta.