131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fsp. 2.

[15:10]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra um hvað líði því að gert sé aðgengilegt, t.d. á vef Samkeppnisstofnunar, að hægt verði að fylgjast með þeim breytingum sem eiga sér stað á stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi.

Við vitum að það er verið að vinna að skýrslu núna um þessi stjórnunar- og eignatengsl. Slík skýrsla var unnin árið 2001 og líka árið 1994 þannig að hún virðist vera gerð á 4–5 ára fresti. Í þau tvö skipti sem slík skýrsla hefur verið lögð fram hefur hún verið mjög umfangsmikil og ég held að mér sé óhætt að segja að t.d. árið 1994 hafi úttektin verið tæpar 500 blaðsíður í bókarformi. Það segir sig hins vegar sjálft að þegar slík skýrsla er lögð fram er hún jafnvel þegar orðin úrelt vegna þess að á degi hverjum eiga sér stað miklar breytingar á þessum eigna- og stjórnunartengslum. Því er mikilvægt að þetta sé uppfært jafnóðum þannig að hægt sé að fylgjast með þeirri samþjöppun sem á sér stað á markaði á hverjum tíma, almenningur geti gert það, fjölmiðlar og stjórnmálamenn. Því spyr ég hvort ráðherrann sjái einhverja annmarka á því að þetta sé uppfært á vef Samkeppnisstofnunar og að þar sé hægt að fylgjast með þessum málum.