132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Áfengisauglýsingar í útvarpi.

507. mál
[13:49]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Fjölmargir hafa gert athugasemdir við áfengisauglýsingar þær sem hér er um að ræða og allir vita um hvað snúast. Að það sé nóg að skjóta inn í nokkrar sekúndur, eða með 10 punkta letri á heilsíðum eða stærri auglýsingum að hér sé um léttbjór að ræða. Jafnvel þegar léttbjór af tegundinni er ekki til eða fluttur inn einungis af sýndarmennsku eða búinn til af sýndarmennsku.

Athyglisvert var að hæstv. menntamálaráðherra vísaði sérstaklega til frumvarps Sigurðar Kára Kristjánssonar, hv. þingmanns, um breytingu á reglum um bann við áfengisauglýsingum hér áðan. Ég hlýt að spyrja ráðherrann hvers vegna hún vísaði sérstaklega til þess frumvarps sem gengur út á að afnema þetta bann en ekki til þess frumvarps sem Ögmundur Jónasson og fleiri hafa flutt hér á þinginu, hafa lagt hér fyrir, þar sem komið er í veg fyrir þessar auglýsingar. Lýsir það (Forseti hringir.) vilja, eða er það yfirlýsing af hálfu ráðherra í málinu?