132. löggjafarþing — 67. fundur,  15. feb. 2006.

Barnaklám á netinu.

506. mál
[14:57]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda og öðrum þátttakendum í þessum umræðum fyrir viðhorfin sem hér hafa komið fram og einnig fyrirspyrjanda fyrir þær upplýsingar sem hún hefur miðlað til þingsins um hvernig Norðmenn hafa staðið að þessu og hvaða ráðstafanir þeir hafa þurft að gera með breytingu jafnvel á stjórnarskránni til að ná þessu fram. Ég veit ekki til þess að slík vandamál hafi komið upp hér en að vissu leyti er ég þar að tala um hluti sem ég hef ekki kannað til hlítar. Eins og fram kom í máli mínu er lögreglan að vinna að því að stofna til samstarfs við internetfyrirtækin um þetta. Frjálsir samningar eru náttúrlega besta leiðin í slíku. Ég hef ekki fengið spurnir af því að nein fyrirstaða sé af hálfu fyrirtækjanna enda held ég að það sé öllum fyrirtækjum fyrir bestu að fá ekki þann stimpil á sig að þau vilji ekki starfa með lögreglunni að því að koma í veg fyrir að netið sé misnotað á þennan veg. Það eitt að við ræðum þetta hér og sá þungi sem er í störfum lögreglunnar, Barnaheilla og annarra í þessu máli ætti að knýja fyrirtæki til að taka höndum saman með yfirvöldum og koma í veg fyrir að ófögnuður af þessu tagi leiki lausum hala á netinu. Vissulega á það kannski við um fleiri þætti þegar litið er til netheima en þetta er þó sá þáttur sem ég held að allir ættu að geta sameinast um að eigi að útrýma. Enginn heiðvirður þjónustuaðili eða maður á að standa þannig að málum að þetta sé opið fyrir fólk sem kannski fer inn á slíkar síður fyrir misskilning og lendir sjálft í hremmingum við það. Ég tel því að lögreglan eigi að vinna að þessu og einnig eigi þjónustufyrirtækin að sjá metnað sinn í því að setja upp síur sem þau geta sjálf sett upp án þess að fá fyrirmæli um það frá lögreglunni.