135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[11:46]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er eins og hér hefur komið fram býsna margt í þessu frumvarpi sem er verið að leggja til að verði breytt í því skyni að samræma réttindi eða auka þau og í sjálfu sér ekki þörf á að fara yfir þau atriði frekar en orðið er í umræðunni. Ég vil því aðeins einblína á önnur atriði í þessu máli.

Ég vil þó segja í fyrsta lagi að það er kannski rétt að menn hafi í huga að sú leið sem varð ofan á í fæðingarorlofsgreiðslunum var að miða réttindin við einstaklinginn. Þau eru breytileg eftir tekjum hans en þau eru ekki eins þannig að jafnaðarstefnan í hefðbundnum skilningi vék fyrir einstaklingsbundinni framkvæmd í raun og veru. Það má segja að jafnaðarstefnan hafi vikið fyrir — eða jafnrétti kynjanna hafi orðið ofan á og menn urðu sammála um að þetta væri leiðin til þess að vinna því framgang, að þá yrði að miða við einstaklinginn, stöðu hvers og eins sem leiðir af sér að réttindin úr ríkissjóði eru mjög breytileg eftir einstaklingum.

Það er rétt að hafa það bara í huga svo menn muni eftir því að það er ekki útrætt mál í sjálfu sér að svo verði endilega um aldur og ævi sérstaklega í ljósi þess að við þurfum á því að halda að hér fæðist sem flest börn. Það hvetur ekki til barneigna ef konur sem eru ekki á vinnumarkaði fá mun minni stuðning í fæðingarorlofi heldur en þær sem eru á vinnumarkaði, sérstaklega ef munurinn er mjög mikill sem hann getur orðið eftir stöðu og menntun. Ég held að það þurfi að huga að þeim enda málsins í því skyni. Það á að reyna að draga úr muninum og auka þá og bæta stöðu þeirra sem eru heimavinnandi eða hafa lágar tekjur. Þetta vildi ég nú segja svona aðeins til að minna á þennan þátt málsins svo hann gleymist ekki alveg þó hann sé ekki hér til umfjöllunar í frumvarpinu sjálfu.

Það fyrsta sem ég vil benda á er ósamræmi í því sem fram kom í máli ráðherra og því sem kemur fram í umsögn fjármálaráðuneytisins. Hæstv. ráðherra sagði í sinni framsögu að það væri nægilegt fjármagn í fjárlögum til þess að mæta breytingunum, tekjur sjóðsins væru áætlaðar 8,6 milljarðar kr. en útgjöldin ekki nema 8,3 þannig að það væri þá hægt að auka útgjöldin með þessu frumvarpi um allt að 300 millj. kr. án þess að til þyrftu að koma breytingar á fjárlögum. Hins vegar ef lesin er umsögn fjármálaráðuneytisins með þessu frumvarpi þá segir í síðustu setningu, með leyfi forseta:

„Vakin er athygli á því að ekki er gert ráð fyrir þessum útgjöldum í fjárlögum 2008.“

Fjármálaráðherra er því ekki sammála hæstv. félagsmálaráðherra um þetta atriði. Það þarf að leiða til lykta og fá skýringar á því. Við getum ekki lokið þessu máli með þetta atriði óklárt. Alþingi sem breytir lögum og eykur útgjöld ríkissjóðs verður líka að gera ráð fyrir því að veita heimild fyrir þeim útgjöldum. Það er ekki gott vinnulag hjá Alþingi ef það samþykkir útgjöld, lagabreytingar og heimilar útgjöld í gegnum þær án þess að sjá fyrir þeim útgjöldum í fjárlögum. Það vinnur gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um það hvar fjárveitingavaldið liggur. Í þetta þarf að fást niðurstaða, virðulegi forseti.

Í öðru lagi bendi ég á að fyrir fjórum árum var gerð viðamikil breyting á þessum lagabálki til þess að treysta fjárhagsstöðu Fæðingarorlofssjóðs. Þá voru meginbreytingarnar þær að setja hámark á tekjur eða greiðslur úr sjóðnum 480 þús. kr. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort sú fjárhæð hafi breyst, hvort ráðherra hafi breytt þeirri fjárhæð og hækkað hana eins og ég held að sé heimilt í lögunum.

Í öðru lagi var viðmiðunartímabilinu breytt sem notað er til þess að finna út við hvaða launafjárhæð eigi að miða þegar reiknað er hlutfall af tekjunum. Þá var, sem sé fyrir fjórum árum, farið úr því að breyta viðmiðuninni yfir í 24 mánuði fyrir fæðingu. Það var gert til að draga úr kostnaðinum, til að draga úr kostnaði við sjóðinn. En útgjöldin stefndu langt fram úr þeim fjárhagslega grundvelli sem var yfir hendi.

Síðan voru auk þess gerðar breytingar á lögum um tryggingagjald þannig að hluti af tekjustofni Atvinnuleysistryggingasjóðs var færður þaðan yfir í Fæðingarorlofssjóðinn. Það voru 750 milljónir sem voru færðar úr Atvinnuleysistryggingasjóði yfir í Fæðingarorlofssjóð á hverju ári, sem sé 0,15% af gjaldinu. Gjaldið til Vinnueftirlits sem var 0,08% á þessum gjaldstofni var lagt niður og fært yfir í Fæðingarorlofssjóð líka þannig að það voru um 400 milljónir.

Nú spyr ég. Þegar í ljósi þess að nú er farið að spá atvinnuleysi, minnkandi atvinnu og það mun reyna þá á Atvinnuleysistryggingasjóð mun Atvinnuleysistryggingasjóður geta tekið á sig það atvinnuleysi eða samdrátt í atvinnu sem Seðlabankinn til dæmis hefur verið að spá að undanförnu án þess fá til þess aukna tekjustofna? Það voru færðar 750 milljónir á hverju ári úr Atvinnuleysistryggingasjóði og nú þegar útlit er fyrir að það muni reyna á sjóðinn getur sjóðurinn þá borið það eða þarf síðar að koma þá fram með frumvarp til þess að treysta tekjustöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs?

Ég spyr líka um Vinnueftirlitið. Ég spyr hæstv. ráðherra: Stendur Vinnueftirlitið jafnrétt eftir að tekjustofn þess sem skilaði um 400 millj. kr. var felldur niður? Er sú staða í ljósi fjögurra ára reynslu þannig að þetta sé allt í lagi, að stofnunin geti sinnt sínum verkefnum án þess að hafa þessar tekjur? Fyrir fjórum árum var verið að bæta fjárhagsstöðu Fæðingarorlofssjóðs um 1.300 millj. kr. með þessum þremur aðgerðum, að færa til tekjur inn í sjóðinn annars vegar úr Atvinnuleysistryggingasjóði og hins vegar frá Vinnueftirlitinu og svo í þriðja lagi með því að draga úr útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs með því að setja hámark á greiðslurnar til einstaklings og breyta tekjuviðmiðuninni og færa hana aftur um 24 mánuði. Þessi breyting var talin skila 150 millj. kr. sparnaði á útgjöldum sjóðsins. En ég sé það í umsögninni um frumvarpið að sú breyting að fara til baka við viðmiðunina á tekjunum sem er auðvitað meginþunginn í útgjöldunum í þessu frumvarpi er talin auka útgjöld ríkissjóðs um 400 millj. kr. á ári. Þetta rímar ekki saman, virðulegi forseti.

Ég held að hv. félagsmálanefnd verði að fara ofan í þessa hluti til að fá skýringar á þessum misvísandi upplýsingum úr tveimur stjórnarfrumvörpum um sama hlutinn, um fjárhagslega áhrif. Það kunna að vera skýringar á þessu. Við skulum ekkert útiloka það. En það er ansi mikill munur að segja fyrir fjórum árum að tiltekin breyting spari útgjöld um 150 milljónir en segja svo núna að nánast sama breyting til baka auki útgjöldin í 400 milljónir. Það þarf að greiða betur úr því og fá betri upplýsingar um hvernig á þessu stendur.

Virðulegi forseti. Þó það sé ekki í anda þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram vil ég gera athugasemd við ákvæði frumvarpsins um sjálfstætt starfandi einstaklinga. Mér finnst anda köldu í þeirra garð. Það er sett upp sérregla. Þeir hafa lakari réttindi í viðmiðun til ákvörðunar á fæðingarorlofsfjárhæðinni en launþegar.

Ég vil nú leyfa mér að setja fram það sjónarmið að ég tel að það standist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að ganga þannig frá löggjöf að skipta mönnum í tvo hópa annars vegar launþega og hins vegar sjálfstætt starfandi og að sjálfstætt starfandi hópurinn fái lakari réttindi en hinir. Ég tel að það standist ekki. Rökin sem færð eru fram eru að sjálfstætt starfandi hafi meiri möguleika til að hafa áhrif á tekjur sínar. Það kann að vera rétt í sjálfu sér. En það á ekki að leiða til þess að þeir eigi að hafa minni réttindi. Það á bara einfaldlega að leiða til þess að það sé þá betra eftirlit með þeim. Ég geri athugasemd við þetta.

Ég hef líka velt fyrir mér þeirri ákvörðun ráðherra að færa eftirlitið frá skattyfirvöldum til Vinnumálastofnunar. Ég tel það verulega breytingu sem þarf að fara vandlega yfir þegar er farið út úr skattkerfinu í stofnun fyrir utan skattkerfið með upplýsingar úr skattkerfinu. Ég held að það þurfi að fara betur yfir það, virðulegi forseti, og fá nákvæma lýsingu á framkvæmdinni og fá viðhorf skattyfirvalda til þess. Ég er ekki alveg sannfærður um að þetta sé rétt. Það er að vísu rétt hjá hæstv. ráðherra að það er heimilt í gildandi lögum. Meginreglan er sú að eftirlitið er hjá skattyfirvöldum en heimilt er að færa það annað og það hefur ráðherrann greinilega nýtt sér. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að í stjórnarfrumvarpinu fyrir fjórum árum segir í athugasemdum, með leyfi forseta:

„Ein helsta breytingin sem lögð er fram með frumvarpi þessu á sjálfu fæðingarorlofskerfinu er samstilling þess við skattkerfið.“

Samstilling þess við skattkerfið. Það var uppgefin ein meginástæðan fyrir því. Ein helsta breytingin í frumvarpinu. Það er búið að henda því út. Það er búið að færa eftirlitið út úr skattkerfinu og það þarf að skoða það nákvæmlega, virðulegi forseti. Ég er ekki sannfærður um þessa breytingu. Það má vel vera að það komi fram upplýsingar í meðferð málsins sem sannfæra mig um að þetta geti verið í lagi og þá er það bara allt af hinu góða ef svo verður. En það kemur ekki fram í þessu frumvarpi sá rökstuðningur sem þarf til þess að útskýra þessa breytingu. Ráðherra þyrfti helst í þessari umræðu að sjá til þess að sú þingnefnd sem fær málið að taka það að sér líka, að fara betur yfir þetta.

Virðulegi forseti. Ég held að ég segi ekki meira um þetta mál. Það eru býsna mörg atriði í því sem er að finna og ástæða væri kannski til að rekja. En flest hefur nú kannski komið fram og ég ætla ekki að endurtaka það sem aðrir þingmenn hafa sagt um þau atriði. En ég vildi koma þessum atriðum að sem ég hef sérstaklega hér nefnt. Mér sýnist að það þurfi að skoða mun betur fjárhagslegan grundvöll málsins, sérstaklega í ljósi þess að hæstvirtir fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra eru greinilega ósammála um áhrif frumvarpsins á fjárlög.