135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

fæðingar- og foreldraorlof.

387. mál
[12:20]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og ég held að í lok hennar megi segja að almennt hafi verið tekið vel undir þær breytingar sem lagðar eru fram í þessu frumvarpi þótt ýmsar spurningar hafi eðlilega vaknað hjá hv. þingmönnum við einstök atriði frumvarpsins, einstök efnisatriði. Ég mun leitast við eftir bestu getu að svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint en spurningar sem ég hef ekki svör á takteinum við við þessa umræðu verða væntanlega skoðaðar nánar í hv. félags- og tryggingamálanefnd.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir spurði um lögheimilisskilyrðin, þ.e. þegar báðir foreldrar stunda nám erlendis og hafa fært lögheimili sitt þangað, hvað yrði þá með rétt móður ef hún, ef ég skil hana rétt, stundar t.d. fjarnám frá þessu nýja landi, stundar fjarnám á Íslandi. Þetta er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, að þetta var í frumvarpi hv. þingmanna Vinstri grænna sem við ræddum fyrir nokkrum vikum og það er einmitt kveðið á um það í því frumvarpi sem hér er til umræðu að breyta því sem verið hefur þannig að foreldrar sem eru erlendis og eru ekki í námi þar en eru í fjarnámi á Íslandi fái þennan rétt.

Varðandi forsjárlausu foreldrana þá er það mál sem var farið mjög vel yfir og í tengslum við það hvort ætti að auka rétt einstæðra mæðra þannig að þær gætu fengið fullan rétt. Þetta var svolítið skoðað í samhengi og það var mikil samstaða um að auka rétt forsjárlausra foreldra en það var talið rétt að gera þetta þannig að það þarf samþykki þess sem fer með forsjána fyrir því að sá sem ekki fer með forsjána nýti þennan rétt upp að fullu fæðingarorlofi í níu mánuði vegna þess að það var talið rétt að ef rétturinn væri yfirfæranlegur til móður, þá hún gæti neitað því að hið forsjárlausa foreldri fengi þennan rétt og nýtti hann sjálf og það mundi þá stuðla að því að draga úr því að í flestum tilvikum eru forsjárlausir foreldrar karlmenn, þeir tækju þá þetta fæðingarorlof.

Það var einmitt vitnað til lands, mig minnir að það hafi verið Noregur og segi það með fyrirvara, að þetta hafi verið reynt þar og þar sé verið að hverfa frá þessu aftur af því að þetta hafi ekki reynst vel. En ég á von á því að félags- og tryggingamálanefnd geti farið mjög vel yfir þetta.

Í þessu samhengi vil ég nefna, af því að ég var á fundi erlendis þar sem fæðingarorlofslög hinna ýmsu landa voru mikið til umræðu, að þó að víða erlendis, t.d. á hinum Norðurlöndunum, sé fæðingarorlof lengra en hér á landi og þó að miðað sé við það að fólk haldi ákveðnu hlutfalli eins og hér er af launum sínum í fæðingarorlofi þá er samt niðurstaðan sú að binda réttinn við karlana, þ.e. að þeir nýti sér réttinn eða að hann falli niður, það er það sem hefur leitt til þess að hér er svo hátt hlutfall karla sem hafa tekið fæðingarorlof sem raun ber vitni. Það var mjög vel farið yfir þetta vegna þess að erlendis, t.d. í Svíþjóð, ég held að ég fari rétt með það, fær móðirin viðbótarrétt karlmannsins ef hann nýtir rétt sinn ekki og það hefur orðið til þess að mjög fáir karlmenn hlutfallslega miðað við hér hafa tekið fæðingarorlof. Það fyrirkomulag sem hér er er verið að skoða í mörgum löndum, þ.e. að rétturinn sé ekki yfirfæranlegur milli foreldra heldur falli hann niður hjá karlmönnunum noti þeir hann ekki. Þetta veit ég að er mjög víða verið að skoða.

Hv. 9. þm. Norðvest., Kristinn H. Gunnarsson, beindi ýmsum spurningum til mín og m.a. hélt hann því fram að einhverjar miklar deilur væru uppi milli mín og hæstv. fjármálaráðherra varðandi kostnaðarmatið, sem er ekki. Það sem við skoðuðum er hvort það fjármagn sem rennur í Fæðingarorlofssjóðinn gefi svigrúm til að fara í þessar breytingar án þess að hækka tryggingagjaldið og það varð niðurstaðan. Það sem stendur hér, með leyfi forseta: „Vakin er athygli á því að ekki er gert ráð fyrir þessum útgjöldum í fjárlögum 2008“ er út af fyrir sig alveg rétt en það er þá hægt að breyta því í fjáraukalögum. Aðalatriðið er að svigrúmið er fyrir hendi í sjóðnum til að standa undir þeim breytingum sem hér eru lagðar til.

Hv. þingmaður hafði líka áhyggjur af Atvinnuleysistryggingasjóði og Vinnueftirlitinu en þar urðu breytingar einmitt á þegar við fórum út í breytingar á fjármögnun og fæðingarorlofi. Ég get sagt hv. þingmanni það að Vinnueftirlitið hefur staðið vel fjárhagslega og fengið sambærilegar fjárheimildir eins og það hafði af mörkuðum tekjustofnum þannig að það á ekki að hafa haft nein áhrif á starfsemi Vinnueftirlitsins að þessi breyting varð á fjármögnun.

Varðandi Atvinnuleysistryggingasjóðinn þá hafði hv. þingmaður áhyggjur af því að sjóðurinn gæti ekki staðið undir því ef aukið atvinnuleysi kæmi til. Sjóðurinn stendur allvel núna. Markaðar tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs standa undir 2,3% atvinnuleysi og atvinnuleysið er sennilega um 1% núna þannig að sjóðurinn stendur alveg bærilega og eigið fé Atvinnuleysistryggingasjóðs var 10,4 milljarðar í árslok 2006.

Hv. þingmaður spyr líka hvort fjárhæðirnar hafi eitthvað breyst og ef ég skil hv. þingmann rétt þá er hann að bera saman það sem kom fram í frumvarpinu þegar viðmiðunartímabilið var leyft en þá var gert ráð fyrir ákveðinni fjárhæð, mig minnir 400 millj. kr. sem mundu sparast af því að lengja viðmiðunartímabilið en nú þegar verið er að breyta tímabilinu aftur og minnka eða stytta það viðmiðunartímabil sem lagt er til grundvallar fæðingarorlofsgreiðslum þá er einungis talað um 200–300 millj. kr. Þetta þarf nefndin auðvitað að fara yfir en þarna geri ég ráð fyrir því að þar sem er ekki gengið alla leið til baka þar sem þetta var á fyrsta árinu þegar fæðingarorlofið var sett af stað árið 2000, þá sé það skýringin á þessu mun. En nefndin þarf auðvitað að fara yfir þetta. Ég hef ekki lagst yfir kostnaðarmatið eins og það er núna, miðað við að viðmiðunartímabilinu verði breytt en þetta þarf að bera saman og ég hygg að á þessu séu eðlilegar skýringar.

Hv. þingmaður hafði áhyggjur af sjálfstætt starfandi einstaklingum, að þar væri annað viðmiðunartímabil lagt til grundvallar og reyndar hafa fleiri sem tekið hafa þátt í umræðunni nefnt þetta. Mér fannst hv. þingmaður tala um að sjálfstætt starfandi hefðu með þessari breytingu lakari rétt en ég held að það sé misjafnt eftir því hvenær barn fæðist á árinu. Viðmiðunartímabilið getur verið lengra aftur í tímann hjá sjálfstætt starfandi þar sem miðað er við tekjuárið á undan, t.d. ef barn fæðist í desember en það getur líka verið styttra. Ef barn fæðist í janúar þá eru lagðir til 12 mánuðir þar á undan, þ.e. eitt ár, meðan yfirleitt er um að ræða 18 mánaða tímabil sem lagt er til grundvallar hjá launamönnum.

Síðan vil ég halda því til haga líka að hér erum við ekki að finna upp hjólið í þessu sambandi vegna þess að það sama er lagt til grundvallar í atvinnuleysistryggingalögum, þar er annað tímabil lagt til grundvallar hjá sjálfstætt starfandi en hjá launamanni. Þetta er reyndar líka í nýsamþykktum lögum frá þinginu og ég held að það hafi líka verið í lögunum áður en þeim var breytt núna, þ.e. um greiðslur til foreldra langveikra barna. Þar er fyrirmyndin að þessu en auðvitað mun nefndin fara yfir þetta eins og annað sem menn hafa gert athugasemdir við og þá geta þeir fengið fyllri rökstuðning fyrir þessu en ég er með núna í ræðustólnum.

Varðandi það að gerðar eru athugasemdir við það að eftirlit með framkvæmd laganna sé fært frá skattinum og yfir til Vinnumálastofnunar þá var lagst mjög vel yfir það. Sú breyting var skoðuð í nánu samstarfi við skattinn og eftir því sem ég skil málið best þá settust menn yfir þetta með skattyfirvöldum og þetta varð sú niðurstaða sem menn komust að. Til dæmis þegar Vinnumálastofnun tók þetta yfir þá var byrjað á því sem ekki var til, það er að hanna sérstakan hugbúnað til að efla eftirlit með að foreldrar leggi sannanlega niður störf en í skoðun sem fór fram kom í ljós að eitthvað hafði verið um það að svo hafi ekki verið í öllum tilvikum.

Ég vona að ég hafi getað svarað nokkrum þeirra spurninga sem fram hafa komið og fyllri svör verða þá veitt af fulltrúum ráðuneytisins í félags- og tryggingamálanefnd. Ég vil aðeins nefna það af því að lengingin á fæðingarorlofinu er mál sem oft hefur borið á góma í umræðunni, sem eðlilegt er, að ég hefði gjarnan viljað sjá það í þessu frumvarpi að við hefðum getað sett niður áfanga að því er varðar lenginguna á fæðingarorlofi en ríkisstjórnin hefur ekki getað tekið ákvörðun um það hvenær það verður gert. Það er þó kirfilega sett niður í stjórnarsáttmálann að fæðingarorlofið verði lengt og það er ekki síður lögð áhersla á það í því sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi í aðgerðaráætluninni sem var samþykkt í sumar fyrir börn og ungmenni að slík áfangaskipti komi til framkvæmda á kjörtímabilinu en það liggur ekki enn fyrir. Menn vilja fá smáandrými til að skoða stöðu mála eftir að ríkisstjórnin hefur farið í veruleg útgjöld líka í tengslum við kjarasamningana. Við þurfum aðeins að sjá til lands í þessu efni en ákvæðin eru mjög skýr í stjórnarsáttmálanum, í aðgerðaráætluninni fyrir börn og ungmenni og eins var líka mjög fast að orði kveðið í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar þegar hún fjallaði um aðgerðaráætlun barna og ungmenna, þar var lögð áhersla á að þetta kæmi til framkvæmda á kjörtímabilinu og reyndar hafði nefndin á mínum vegum skoðað hvaða leiðir hún teldi bestar þegar til lenginganna kæmi. Útfærslurnar á þessu hafa því verið skoðaðar þó að ég undirstriki að ríkisstjórnin hefur ekki tekið ákvörðun um það hvenær fæðingarorlofið verði lengt.

Ég vona að ég hafi með sæmilegum hætti getað svarað þeim spurningum sem til mín hefur verið beint við þessa umræðu og ég vona að þetta frumvarp fái farsælar lyktir í meðferð og umfjöllun félags- og tryggingamálanefndar á því.