135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:25]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er rétt að fram komi strax í upphafi að þingflokkur Frjálslynda flokksins stendur að þessu máli. Hann á ekki flutningsmenn að frumvarpinu vegna þess að hann á ekki fulltrúa í forsætisnefnd en við tókum þátt í undirbúningi málsins á haustþingi og stóðum að flutningi lagafrumvarps um breytingu á þingsköpum þá. Þetta er hluti af því máli og við stöndum að því að öðru leyti en því að hv. þm. Jón Magnússon hefur gert grein fyrir sinni skoðun hér. Það gerði hann reyndar fyrir áramót eins og þingmönnum er kunnugt um.

Ég held að menn verði að átta sig á því að þörf er á því að þingmenn hafi aðstöðu og möguleika á að rækja starf sitt sem best. Það þykir mönnum sjálfsagt annars staðar. Það þykir hv. þm. Ögmundi Jónassyni sjálfsagt annars staðar. Honum finnst sjálfsagt að þegar þingmenn verða ráðherrar hafi þeir aðgang að starfsfólki og möguleika til að hafa aðstoð við að undirbúa starf sitt. Af einhverjum ástæðum þykir honum eitthvað annað eiga við um þingmenn, að ekki eigi að vera sömu möguleikar fyrir hendi og hann leggst gegn breytingum í þá átt að stíga skref til þess að þingmenn geti fengið aðstoðarmenn við störf sín.

Fram kom í haust að hv. þingmaður gerði sitt besta til að koma í veg fyrir að hér yrðu gerðar breytingar á þingsköpum og lagði sig mjög fram um að torvelda samkomulag í þeim efnum. En honum varð ekki að ósk sinni að lokum og samkomulag annarra flokka var gert og það náði fram að ganga sem betur fer. Við heyrðum fyrr á þingfundinum í 3. umr. um jafnréttisfrumvarpið að einn þingmaður þingflokks hans, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, tók það einmitt sérstaklega fram að einn þáttur í breyttum þingsköpum, þ.e. að heimilt væri að vísa máli til nefndar milli 2. og 3. umr. ef einn þingmaður óskaði þess, hefði verið mjög til góðs. Það var ein af breytingunum sem hv. þm. Ögmundur Jónasson lagðist gegn.

Sem betur fer er mikill meiri hluti fyrir því að halda áfram á þeirri braut sem menn hafa verið að stíga. Hv. þm. Ögmundi Jónassyni tókst í átta ár að koma í veg fyrir að þingsköpum yrði breytt. Það var einmitt líka fyrir átta árum sem tillögur um aðstoðarmenn landsbyggðarþingmanna komu fram í tengslum við kjördæmabreytinguna sem þá var verið að vinna að. Sérstök nefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka, m.a. þess þingflokks sem hv. þm. Ögmundur Jónasson átti sæti í, lagði til breytingar í þessa veru, að landsbyggðarþingmenn fengju að ráða sér aðstoðarmann í hálfu starfi samhliða því að tekin yrðu upp mjög stór kjördæmi á landsbyggðinni. Fyrsti þingmaður í kjördæmi hvers flokks fengi að ráða sér aðstoðarmann í heilt stöðugildi. Þetta var samkomulag sem stjórnarflokkarnir gerðu sín á milli á sínum tíma og var liður í samkomulagi um kjördæmabreytinguna. Ekki var annað vitað á þeim tíma en að allir stæðu að því. Það kom hins vegar því miður í ljós eftir kosningarnar 1999 að formenn þeirra stjórnmálaflokka sem þá sátu í ríkisstjórn reyndust vera andvígir samkomulaginu þegar til átti að taka. Þeir höfðu einfaldlega ekki gert grein fyrir þeirri afstöðu sinni fyrir kosningar þannig að þingmenn flokka þeirra vissu ekki annað en að fullt samkomulag væri um það. Síðan kom í ljós að svo var ekki. Því miður náði þetta ekki fram að ganga þá.

Síðan var gerð önnur atlaga að þessu máli í tengslum við breytingar á þingsköpum sem einnig stóð til að gera fyrir átta árum og þess vegna var málið tekið upp undir forustu núverandi forseta Alþingis. Honum tókst að ná samkomulagi annars vegar um breytt þingsköp og hins vegar um að þetta yrði efnt. Mér finnst það ekki slæmur árangur að tekist hafi að efna það nú sem gera átti fyrir átta árum. Ég er algerlega ósammála þeim sem hér tala að um einhverja nýbreytni sé að ræða sem beri að varast. Ég held að allir sjái sem komið hafa að þessum störfum, hvort sem er hér á Alþingi eða annars staðar, að mikil þörf er á þessu og full rök fyrir því.

Atriðið um aðstoðarmann í landsbyggðarkjördæmi er sérstaklega rökstutt með því að það auðveldar þingmönnum að hafa samband við kjósendur og rækja skyldur sínar í kjördæminu. Einmitt vegna þess að kjördæmin eru stór og ferkílómetrarnir margir er talin þörf á því að þingmenn þessara kjördæma hafi menn sér til aðstoðar til að rækja skyldur sínar. Kjördæmin eru víðlend, dreifbýl, margir þéttbýlisstaðir í hverju kjördæmi og þingmenn hafa einfaldlega ekki möguleika á því að sinna hlutverki sínu á öllum stöðum sem vert væri vegna þess að margt fer fram samtímis. Það er bara þannig sem þetta er til komið. Það er ekki sérstaklega hugsað sem aðstoð við starf þingmannsins í málatilbúnaði, þ.e. aðstoð við að undirbúa mál. Það er annar rökstuðningur sem er gildur í sjálfu sér og getur stutt að starf aðstoðarmanns verði yfirgripsmeira en með þessu frumvarpi er gefinn möguleiki á að stofnað verði til þess. Það mundi þá auðvitað ná til allra þingmanna sem eðlilegt er því að allir sitja við sama borð í þeim efnum.

Hvað þennan þátt málsins varðar, þ.e. starfið í kjördæmunum, eru aðstæður sérstakar í landsbyggðarkjördæmum og halda áfram að vera það. Fyrsta skrefið sem stigið er varðar bara það, eins og kom fram í máli hæstv. forseta Alþingis. Væntanlega — og ég er sammála honum um það — verður næsta skref það að heimilað verði að ráða aðstoðarmenn sem hafa sérstaklega það hlutverk að aðstoða þingmanninn í málatilbúnaði. Það mun þá auðvitað gilda gagnvart öllum þingmönnum. Hvernig það verður eða hvenær veit ég ekki frekar en aðrir en væntanlega — og ég hef þá skoðun á þessu stigi — verður það fyrr en seinna sem það skref verður stigið.

Það er líka misskilningur sem hér kom fram að verið sé að mismuna þingmönnum með þessu í starfskjörum. Það er ekki verið að gera og ég get vísað til þess að nú eru í gildi mismunandi greiðslur til þingmanna eftir kjördæmum hvað varðar starfskostnað, húsnæðiskostnað og ferðakostnað. Það er vegna þess að aðstæður í landsbyggðarkjördæmi eru öðruvísi en í höfuðborgarkjördæmi. Þess vegna eru þessar reglur mismunandi eins og þær eru í dag og hafa verið í mörg ár. Það er rangt að halda því fram að svo hafi ekki verið. Ég vísa því algerlega á bug að slíkt sé brot á einhverri jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þeir sem svoleiðis tala gera það ekki af mikilli yfirvegun og menn eiga ekki að velja komandi aðstoðarmönnum, sem nú á að ráða, einhver ónefni eins og heyrðist úr ræðustóli fyrr í þessari umræðu. Það er ekki til þess að stuðla að málefnalegri umræðu og þeir sem leyfa sér slíkan málflutning eru fyrst og fremst að dæma sjálfa sig en ekki þá sem standa að því að flytja þetta frumvarp.

Það er að vísu minna en um var samið árið 1999 og var þá — ég ítreka — samkomulag allra stjórnmálaflokka eins og hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson veit því að hann var á þeim tíma í forsvari fyrir stjórnmálaflokk. Auðvitað er minna að ráða í einn þriðja úr stöðugildi í stað hálfs, að sjálfsögðu munar um það og er minna en til stóð. Ég vonast til þess að síðar meir verði hlutfallið hækkað upp í það sem um var samið milli stjórnmálaflokkanna á þeim tíma. Það er full ástæða til þess. En það er áfangi og ávinningur í því að koma þessu samkomulagi loksins í höfn og jafnframt ánægjulegt hversu víðtækur stuðningur er við það á Alþingi. Ég hygg að ef miðað er við breytingar á þingsköpum fyrir jól standi yfir 80% þingmanna að þessari breytingu og er það vel. Það ber vott um að um hana er almennt samkomulag og mikill stuðningur. Það er vonandi að hv. þingmenn taki mið af því í málflutningi sínum.