135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnaður.

403. mál
[17:38]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Mér finnst mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað við erum að tala um þegar við tölum um að jafna starfskjör þingmanna. Samkvæmt lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað er kveðið á um að gera sérstakar ráðstafanir varðandi ákvörðun þingfararkaups og þingfararkostnaðar til þess að þeir sem búa fjarri Alþingishúsinu, þingstaðnum, njóti sambærilegra kjara og þeir sem búa í Reykjavík eða Suðvesturkjördæmi og við höfum ákvæði um þingfararkostnað hvað það varðar, þ.e. mánaðarlegan húsnæðis- og dvalarkostnað til að hafa dvalarstað í Reykjavík og geta verið í ferðalögum sem slíkum sem útheimtast vegna fjarlægðar. En það er síðan allt annað mál það sem við erum að ræða um hér.

Hér er verið að tala um að heimila þingmanni að ráða aðstoðarmann og þar er ekki um að ræða sömu aðstæður og þeirra sem búa langt frá þingstaðnum. Í þjóðþingum víða er farið að eins og í okkar þingskapalögum með þingfararkaup. Þeir sem búa fjarri þingstaðnum fá ákveðna aðstöðu til að geta rækt starf sitt. En hér erum við að fjalla um allt annan þátt starfskjara þingmanna. Hvaða þáttur er það? Hann er sá að gefa hluta þingmanna heimildir umfram annan hóp þingmanna en það er ekkert háð þeim atriðum sem eru sérákvæði um í þeim lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað sem hér ræðir um og sem er í lögum núna. Þar af leiðandi er það röng ályktun að halda því fram að hið sama gildi um það sem kemur fram í þessu frumvarpi um heimild alþingismanna til að ráða aðstoðarmann og þau ákvæði sem þegar eru fyrir í lögum um þingfararkaup. En vegna þess sem þar er einmitt rætt um skal tekið fram að það er ekki geðþóttaákvörðun einhverra aðila hvernig með skuli fara. Þetta er ákveðið í lögum. En samkvæmt því frumvarpi sem hér er um að ræða er það geðþóttaákvörðun forsætisnefndar og fjárveitingavalds hverju sinn hvernig þetta skuli vera. Við það staldra ég í fyrsta lagi og tel óheppilegt og ég tel í raun að þarna sé um of víðtækt lagasetningarvald því það sé sett í hendur þeirra sem í raun eigi ekki með það að fara. Lagasetningarvaldið á að vera í höndum Alþingis sjálfs og það er Alþingis að móta skýrar endanlegar reglur um það hvernig skuli með fara í þessu efni.

Þegar við mörkum starfskjör hluta þingmanna þannig að þeir megi eftir því frá hvaða kjördæmi þeir koma ráða sér aðstoðarmenn en það gildi ekki fyrir aðra þá erum við í raun að mismuna þingmönnum á þann hátt að ég stend við það og held því fram að það sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár og verði þetta að lögum þá væntanlega reynir á það hvort sá lagaskilningur er réttur eða ekki. Ég tel miklu eðlilegra og heppilegra ef menn á annað borð eru að velta því fyrir sér að bæta starfskjör þingmanna að hafa þá sömu reglu sem gildir fyrir þá alla. Ég hefði hins vegar talið heppilegra ef við hefðum farið aðra leið sem hefði verið skilvirkari og betur til þess fallin að stuðla að góðu löggjafarstarfi með því að heimila þingmönnum að greiða ákveðinn hluta eða sem sagt að veita ákveðna fjárheimild til að afla sér sérfræðiálita og/eða annarra slíkra hluta sem gætu orðið til að auðvelda lagasetningar- og löggjafarstarf. Það hefði mér fundist heppilegra og vera betur til þess fallið að auka virðingu Alþingis.

Eins og frumvarpið er núna finnst mér full ástæða til að taka þann góða vilja sem liggur að baki þeim frumvarpsflutningi sem hér er um að ræða til skoðunar og gera það ítarlega af því að okkur liggur ekkert á. Það liggur ekki á að afgreiða frumvarp fyrir einhverja ákveðna dagsetningu heldur liggur okkur á hverju sinni að afgreiða lög frá Alþingi sem eru vönduð og sem standast til lengri tíma en nokkurra mánaða.