135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

rannsóknir og sjálfbær nýting jarðhitasvæða.

13. mál
[19:00]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú skal ég viðurkenna eins og ég hef sagt í fyrri ræðum mínum að ég hef ekki alveg hugsað þetta í botn. En í fljótu bragði mundi ég ekki kalla þetta blóðmjólkað svæði. Af hverju? Vegna þess að þau eru hvíld væntanlega til þess að þau nái fyrri stöðu. Ég er síður en svo að mæla með því að menn taki eitt eða tvö háhitasvæði, eins og hv. þingmaður orðar það með tilvitnun í merkan mann, og noti sem einhvers konar tilraunasvæði. Alls ekki. Ég tel að menn eigi að fara með mikilli gát í þessa vinnslu.

Hins vegar þá velti ég fyrir mér hvaða skemmd sé hægt að vinna á þessum svæðum með of mikilli nýtingu, væntanlega ef mjög hart er keyrt eins og var gert á Geysissvæðinu í Kaliforníu. Mestu skemmdirnar sem hægt væri að vinna er annars vegar að allt vatn væri tekið af svæðinu sem ég hugsa að gerist ekki vegna þess að löngu áður en kæmi að því að lítið aðrennsli væri inn á svæðið, eins og var á parti á Kröflu, þá væri svæðið fyrir löngu hætt að vera arðbært og menn hættir nýtingu þess.

Hitt sem hv. þingmaður er væntanlega að velta fyrir sér er ef það er mikið vatnsstreymi um svæðið þar sem endurnýjun hita vegna leiðni í bergi er ekki nægilega mikil eða orkugjafinn, innskotið fyrir neðan er ekki nægilega heitt eða farið að kólna, að það geti leitt til kólnunar á svæðinu öllu. Það kann að gerast. Ég ímynda mér þá að í jarðsögulegu tímatali mundi það endurnýjast. En það mundi kannski taka mjög langan tíma. Ég er ekki að mæla með því, síður en svo.

Jarðhitakerfin eru mjög flókin. Hv. þingmaður vísar t.d. til Mosfellssveitar þar sem menn byrjuðu á jarðhitavinnslu. Það var búið að vinna jarðhita þar töluvert lengi þegar menn komust að því að þar er ekki um eitt jarðhitakerfi að ræða heldur þrjú sem eru nánast samanundin. Ekki vil ég nú upplýsa hv. þingmann hvaða vísindamaður það var sem komst að því en hann er mér nátengdur.