135. löggjafarþing — 67. fundur,  21. feb. 2008.

rannsóknir og sjálfbær nýting jarðhitasvæða.

13. mál
[19:04]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get trúað hæstv. forseta fyrir því að ég hefði orðið fyrir svolitlum vonbrigðum ef hv. þingmaður hefði ekki orðið fyrir einhverjum vonbrigðum með það sem ég hef sagt.

En ég er meira svona að skiptast á skoðunum við hv. þingmann og kannski að hugsa upphátt. Ég máta ýmislegt það sem hv. þingmaður hefur verið að segja við ýmis rök og staðreyndir sem hún hefur fært hér fram og hefur sótt í smiðju ýmissa vísindamanna. Ég get sagt hv. þingmanni það og ég hef sagt það í þessum sal áður að sá maður sem ég hef óskað eftir að verði leitað til um þessar skilgreiningar og þessar reglur er Sveinbjörn Björnsson, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands. Ég hef líka lýst því yfir að ég lít á sjálfan mig sem tæknikrata. Ég fer að ráðum sem mér eru veitt af mönnum sem hafa betri yfirsýn en ég.

Það er ekkert markmið hjá mér að nýta þessar jarðhitaauðlindir með þeim hætti sem hægt er að segja að séu ekki sjálfbærar. Ég sagði það áðan og hef sagt það fyrr í þessari umræðu við hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að ég geri mér mætavel grein fyrir því að það er hægt að nýta endurnýjanlegar auðlindir með þeim hætti að ekki er hægt að kalla það sjálfbært. Það er algjörlega ljóst.

Ég hef einungis verið að velta því fyrir mér hvort það sem hv. þingmaður segir að séu óráðleg nýtingaráform hjá Orkuveitu Reykjavíkur falli ekki eigi að síður undir þá skilgreiningu sem hún sjálf leggur hér á borðið með sér og sækir í farteski prófessors Guðna Axelssonar. Ég fæ ekki betur séð en að nýtingaráformin, eins og hún lýsir þeim, falli að þeim skilgreiningum sem prófessor Guðni Axelsson leggur á sjálfbæra nýtingu, þ.e. að hægt sé að nýta svæðið í 100–300 ár með lítt breyttum hætti.

Ef það er hægt þá fellur það undir skilgreiningu Guðna Axelssonar. En ég ætla nú ekki að þrasa við hv. þingmann. Ég er í meginatriðum sammála helstu sjónarmiðum sem hún hefur flutt (Forseti hringir.) hér.