141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:13]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Óhætt er að taka undir að þetta er vandvirknislega og vel gert frumvarp og við fjölluðum töluvert um forvera þess í fyrravetur. Var það mjög gagnleg umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd.

Ég velti fyrir mér — markmiðin eru svo sannarlega háleit sem snúa að gagnsæi, fjölbreytni og eignarhaldi á fjölmiðlamarkaði mestan part — hvort tæknin, hin öra tækniþróun, hefði að einhverju leyti leyst málið fyrir okkur síðustu tíu árin og hvort netið, tilkoma þess, hefði að einhverju leyti sprengt upp ofurvald öflugra dagblaða, stórblaða, ljósvakamiðla og samsteypa á fjölmiðlamarkaði. Fjölmiðlamarkaðurinn hefur tekið stakkaskiptum á nokkrum árum þegar í rauninni hver einasti maður er sinn eigin fjölmiðill. Fólk er miklu meira á netinu og leitar upp fréttir og upplýsingar sem það hefur áhuga á í staðinn fyrir að sitja yfir einu eða tveimur dagblöðum eða sjónvarpsstöðvum upp á gamla mátann. Samt má ekki gera lítið úr áhrifum hefðbundnu blaða- og ljósvakamiðlanna. Þau eru auðvitað heilmikil enn.

Ég tek undir það að reyna þarf að setja öflugri reglur um eignarhaldið. Auðvitað má velta því lengi fyrir sér hvort við séum að ganga nógu langt hér hvort það sé of matskennt hverjar hinar fjölmiðlaréttarlegu forsendur eru fyrir Samkeppniseftirlitið til að taka jafnstóra og umdeilda ákvörðun, sem það alltaf yrði, að sprengja upp eignarhald á fjölmiðli.

Eins og hæstv. ráðherra sagði munum við endurskoða og ræða þetta reglubundið og fylgjast mjög vel með því. Ég held að verið sé að feta sig varfærnislega að því mikla markmiði, af því að yfirburðastaða einstakra miðla er stórhættuleg eins og við vitum og sjáum. En á móti kemur höfum við mjög drottnandi ríkisútvarp sem má líka velta fyrir sér hvort sé of drottnandi á okkar örmarkaði sem ber aldrei annað en einn eða í mesta lagi tvo aðra öfluga ljósvakamiðla.