143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

lengd þingfundar.

[16:17]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Enn skortir á röksemdir í þingsal. Hvernig rökstyður hæstv. forseti þá tillögu að þingfundur sé lengdur? Það fór algjörlega fram hjá mér.

Tillaga forseta um lengdan þingfund er fullkomlega órökstudd. Hvert er vandamálið? Umræðan um skýrslu er takmörkuð samkvæmt þingsköpum. Þingmenn hafa takmarkaðan ræðutíma, samkvæmt sérstöku samkomulagi korter í fyrri ræðu og fimm mínútur í þeirri síðari. Ræðutíminn er ekki lengri en það. Af hverju þarf að halda sérstakan kvöldfund um þetta? Hvaða tilfæringar eru það? Ég átta mig ekkert á því hvaða stemning er eiginlega orðin í þingsal. Þarf að sýna hvað maður getur gert og gera það bara þess vegna? Er það orðið viðkvæðið hér?

Fer ekki betur á því að það sé samkomulag um lengd þingfunda og við reynum að tjasla upp í það traust sem á að vera grundvöllur uppbyggilegra þingstarfa? Eigum við ekki að reyna að gera það, virðulegur forseti?

Ég segi nei við tillögunni um kvöldfund.