143. löggjafarþing — 67. fundur,  24. feb. 2014.

lengd þingfundar.

[16:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eina ástæðan fyrir því að kvöldfundur á að vera í kvöld er vegna þess að þetta eina mál sem var sett hér fram og kynnt fyrir helgi á að keyra í gegn. Þetta er merki um það, vegna þess að engin önnur mál frá þessari ríkisstjórn bíða, (Gripið fram í: Jú, jú.) það eru engin (Gripið fram í: Hvaða mál?) önnur mál. Það er ekkert að gerast hérna í þessu þingi og kvartað hefur verið yfir því að þingfundir hafi verið stuttir, meira og minna í allan vetur. Í allan vetur hefur ríkisstjórnin ekki getað skilað af sér málum.

Svo núna kemur eitt mál og þá allt í einu er kvöldfundur vegna þess að keyra á viðræðuslit við Evrópusambandið í gegn. Það er það sem ríkisstjórnin og forseti er að segja með því að ætla að halda hér kvöldfund. Hann ætlar að hjálpa ríkisstjórninni við það. Virðulegi forseti, þetta er fyrir neðan virðingu þingsins, þetta eru óeðlileg vinnubrögð og þetta á ekki að líðast.

Ég geri þá ráð fyrir að við munum sjá dagskrána fulla af stjórnarfrumvörpum alla þessa viku. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Fyrst hafa þarf kvöldfundi, virðulegi forseti, þá hlýtur það að vera svo að hæstv. forseti viti að í þessari viku muni (Forseti hringir.) þau hrannast hér á dagskrá.

Ég tek ekki þátt í því skemmdarverki sem (Forseti hringir.) er að fara að eiga sér stað með þessari keyrslu á (Forseti hringir.) þessu stóra máli í gegnum þingið og segi því nei.