144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

meðferð einkamála.

462. mál
[19:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru allt mikilvæg sjónarmið sem fram koma í andsvari hv. þingmanns. Jú, það er skoðun okkar sem leggjum þetta mál fram og höfum lagt í það vinnu að mikilvægt sé að það fari hér í gegn. Að öðrum kosti værum við ekki að leggja það fram.

Það eru nákvæmlega sömu sjónarmið sem eiga við núna eins og þegar heimildin kom inn í fyrsta skipti. Þar var farið vel yfir öll atriði og talið mjög mikilvægt að þessi vilji þingsins kæmi þarna inn. Það er rétt að það stendur ekki í þessu að stytta eigi fresti um einhvern ákveðinn tíma en hér kemur fram, í þessu ákvæði sem við erum að framlengja, að reyna eigi að koma þessum málum í gegn eins skjótt og hægt er og ég verð einfaldlega bara að skilja að ekki eru allir tilbúnir að standa að slíku máli.