145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin afneitar orsökum efnahagshrunsins á Íslandi árið 2008. Stjórnarflokkarnir eru á fullri ferð við að endurreisa sama fjármálakerfi og hrundi. Það er sami veiki gjaldmiðillinn, sama vonda verðtryggingin, sömu okurvextirnir og bráðum líka myntkörfulánin, sama fákeppni á bankamarkaði og lífeyrissjóðir lítt breyttir. Vinna er hafin við að einkavæða viðskiptabankaveldin á ný með drottnandi stöðu. Vaxandi spilling er á hlutabréfamarkaði og ýmis þenslumerki. Sama stýrivaxtapólitík heldur uppi óhóflegum kostnaði í atvinnulífinu og laðar erlenda spákaupmenn í vaxtamunarviðskiptum með fjármuni á nýjan leik inn í Seðlabankann.

Íslensku þjóðarbúi vegnar vel, m.a. vegna ytri aðstæðna. En íslenskt þjóðarbú er viðkvæmt fyrir breyttum ytri aðstæðum. Það er vaxandi áhyggjuefni ef það er afstaða stjórnvalda að endurreisa eigi í óbreyttri mynd það fjármálakerfi sem féll.


Efnisorð er vísa í ræðuna