145. löggjafarþing — 67. fundur,  26. jan. 2016.

almenn hegningarlög.

11. mál
[17:59]
Horfa

Flm. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að veita stutt andsvar, ég fell frá öðru andsvari. Við höfum verið að ræða þetta, ég og hv. þingmaður, og ég skildi aldrei hvernig ríkissaksóknari gat séð það út að núgildandi ákvæði í 233. gr. b. gæti náð yfir þetta út af því að það á við um parasamband eða maka. Við erum að ræða um annan veruleika. Fólk þarf ekki að hafa verið í sambúð, það er það sem frumvarpið okkar gengur út á, eða í parasambandi, einhver sem tengist þér á annan hátt getur sent svona mynd, það er það sem við erum að tala um, við þurfum að komast fyrir það.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að fræðsla er númer eitt, tvö og þrjú. Hún skiptir máli til þess að ungir drengir og stúlkur séu ekki að nota myndir af þessu tagi á leiðinlegan hátt, ef við getum sagt sem svo, án þess að gera sér grein fyrir afleiðingunum af því að dreifa þeim: fatta kannski eftir á: Bíddu nú við, hvað hef ég eiginlega gert? Við þurfum að ræða númer eitt, tvö og þrjú, að þetta sé ekki í lagi.

En annars vil ég segja út af því að hv. þingmaður nefndi það siðleysi sem við erum að fjalla um hérna; ef hægt er að koma því við að banna siðleysi þá skulum við reyna að negla það niður.