146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

Brexit og áhrifin á Ísland.

[11:07]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og þingmönnum fyrir góða þátttöku og áhugaverðar umræður og góð innlegg inn í víðfeðma og mikilvæga umræðu sem Brexit er fyrir okkur Íslendinga. Ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra stefni að djúpum og víðfeðmum efnahagssamningum og að hann stefni að fullri fríverslun með fisk í samskiptum við Breta. Það er mjög áhugavert og merk tíðindi. Það er líka afar nauðsynlegt að heyra það frá hæstv. ráðherra að ráðamenn ESB ætli að upplýsa okkur um samskipti ESB og Breta í viðræðum sínum. En ég vil líka halda því til haga að Ísland er með sjálfstæða utanríkisstefnu og þarf að standa vörð um sjálfstraust sitt þegar kemur að því að halda sjónarmiðum okkar og hagsmunum á lofti.

Eins og einhver nefndi áðan þurfa efndir að fylgja orðum, kné verður að fylgja kviði, og ég hef því miður ekki séð neina eyrnamerkta fjármuni til hagsmunagæslu okkar þegar kemur að samskiptum við Breta eftir útgöngu þeirra og í tengslum við útgöngu þeirra úr Evrópusambandinu. Þess vegna myndi gjarnan vilja heyra það frá hæstv. utanríkisráðherra hvort hann sjái fyrir sér að veita meiri fjármuni til þessara hagsmunagæslu og þá hvernig.

Síðan árétta ég það sem ég kom inn á í ræðu minni og fleiri hafa talað um, þar á meðal hv. þm. Birgir Ármannsson, að þingið sé ávallt upplýst reglulega um framvindu mála þegar kemur að Brexit og framtíðarsamskiptum okkar við Bretland. Þetta er ekki í eina skiptið sem við munum ræða þetta viðamikla mál hér því að eins og umræðurnar hafa sýnt og sannað snerta þær á mjög viðamiklum málaflokkum, ekki bara efnahagssamskiptunum heldur líka öðrum samskiptum, sem ég efa ekki að hæstv. ráðherra muni halda til haga og ég hvet hann til þess.