146. löggjafarþing — 67. fundur,  22. maí 2017.

viðurkenning erlendra ökuréttinda.

300. mál
[11:42]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Umferðarslysum hefur fjölgað gríðarlega, eðlilega, í takt við aukna umferð, ekki síst hjá erlendum ferðamönnum. Árið 2014 slösuðust 123 erlendir ferðamenn, þar af 21 alvarlega. Ári síðar voru þeir orðnir 213, 26 slösuðust alvarlega og þá létust fimm. Á síðasta ári voru þeir 223 og þar af 43 sem slösuðust alvarlega og tveir létust.

Hlutfallslega var það svo að Kínverjar voru flestir þeirra sem slösuðust í umferðinni í fyrra. Þar á eftir komu Ítalir og svo Frakkar.

En hver er skýringin? Mikið hefur verið rætt um að Asíubúar þurfi ekki að gangast undir eins dýr námskeið og kennslu og þekkist hér á landi. Jafnvel er talað um að sumir hafi aldrei setið undir stýri eða að próf sé tekið í ökuhermi þar sem ekki er gert ráð fyrir aðstæðum eins og hér geta skapast, m.a. í hálku og á mjóum malarvegum, en þar hafa einmitt flest umferðarslysin átt sér stað, þ.e. á malarvegum, og svo hefur verið töluvert um bílveltur í hálku.

Það er einnig svo að bílbeltanotkun virðist ábótavant, sérstaklega í aftursætum, en víða er það ekki bundið í lög.

Vissulega má segja að margur erlendur ferðamaðurinn sé vanari akstri í stórborgum eða nýti almenningssamgöngur dags daglega. Þess vegna er sú víðátta sem hér blasir við þeim ókunnug og við sjáum það m.a. í formi þess að bílar eru stopp á miðjum þjóðvegi. Við sjáum ferðamennina skoða hesta, kindur eða norðurljós og hugsa ekki beint um umferðina sem á móti eða eftir kemur.

Forvarnir eru mikilvægar. Gott dæmi um þau er samstarfið milli kínverska sendiráðsins og Samgöngustofu þar sem ýmislegt hefur verið þýtt yfir á kínversku, bæði akstursleiðbeiningar, vegskilti og fleira. Nú veit ég til þess að krafist er að ökuskírteini frá Kína séu með latnesku letri eða þýdd af löggiltum skjalaþýðanda. Svo er fræðsluefni Samgöngustofu líka afhent um leið og þeir fá áritun í vegabréfið, sýnt er kennslumyndband í afþreyingarkerfi Icelandair, en það þyrfti svo sannarlega að gera í fleiri flugvélum sem hingað fljúga.

Bílaleigurnar hafa líka stóraukið fræðslu til ökumanna með því að setja t.d. límmiða á stýri með upplýsingum, enda full þörf á þar sem við höfum heyrt af slysum sem hefði mátt koma í veg fyrir með ýmsum aðgerðum. Alvarlegasta dæmið sem ég hef heyrt um er af starfsmanni á bílaleigu á Keflavíkurflugvelli sem var í rúman klukkutíma að kenna viðkomandi ökumanni á bílinn en sá gat hreinlega ekki skipt um gír og hafði ekki kunnáttu til að setja í bakkgír. Skömmu seinna velti þessi einstaklingur bílnum á Reykjanesbrautinni. Sem betur fer er þetta ekki algengt en ýmislegt svona virðist koma fyrir of marga erlenda ökumenn og þeir sem aðstoða þá hafa svona sögur að segja, þó ekki jafn alvarlegar og þessa.

Ég sé að tími minn er búinn. Spurningarnar liggja fyrir ráðherra og ég vona að hann geti svarað þeim. (Forseti hringir.) Ég klára svo það sem upp á vantar á eftir.