149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í gær ræddi sóttvarnalæknir í kvöldfréttum Stöðvar 2 um bólusetningar við hlaupabólu. 5% íslenskra barna eru bólusett fyrir hlaupabólu og eitt barn lést á síðasta ári. Hann ræddi hvort taka ætti þessa bólusetningu inn í hina almennu bólusetningu.

Mér fannst umræðan áhugaverð og hvet hæstv. heilbrigðisráðherra til að skoða það. Vissulega fylgir þessu nýr kostnaður en með þessu er ekki aðeins mögulegt að komast hjá miklum veikindum og mögulega dauðsföllum, heldur gæti þetta einnig verið afar hagkvæmt, enda getur maður rétt ímyndað sér allan þann fjölda veikindadaga foreldra vegna hlaupabólu sem öll börn fá.

Hér liggur líka fyrir tillaga til þingsályktunar um skipan starfshóps er leggi til breytingar til að auka hlutfall bólusetninga barna. Fyrsti flutningsmaður hennar er Hildur Sverrisdóttir. Virðist af tillögunni sem allir flokkar styðji hana. Þar er sagt að Alþingi álykti að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem greini hvaða breytingar sé hægt að gera til að auka hlutfall bólusetninga barna og komi með tillögur þar um.

Í umræðum, eins og segir í greinargerð, hefur komið fram að hluti vandans sé ekki síst sá að það farist fyrir hjá foreldrum að láta bólusetja börn sín af andvaraleysi eða öðrum ástæðum frekar en vegna vísvitandi ákvarðana. Tillaga þessi er viðleitni til þess að gerðar verði úrbætur innan heilsugæslukerfisins til að tryggja að sem flestir ljúki öllum nauðsynlegum bólusetningum barna sinna með þeim hætti sem landlæknisembættið ráðleggur svo viðhalda megi hjarðónæmi.

Það væri afskaplega gott að þessi þingsályktunartillaga kæmist á dagskrá og yrði samþykkt af því að ég held að þetta sé afar mikilvægt, ekki bara fyrir okkur öll heldur börnin okkar líka. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)