149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Virðulegi forseti. Síðastliðinn föstudag var mjög áhugaverður kynningarfundur um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna haldinn á Grand Hótel í Reykjavík. Fundurinn var haldinn af Sambandi íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við verkefnisstjórn heimsmarkmiðanna. Fundurinn var vel sóttur en honum var einnig streymt í gegnum vef sambandsins þannig að sveitarstjórnarmenn og starfsmenn sveitarfélaga um land allt gátu tekið þátt í vettvanginum.

Hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir tók fram í setningarávarpi sínu að Efnahags- og framfarastofnunin OECD hefur gefið út að ekki verði hægt að ná 65% af 169 undirmarkmiðum heimsmarkmiðanna án virkrar aðkomu og þátttöku sveitarfélaganna. Sveitarfélögin eru því lykilaðilar í innleiðingu framkvæmdaáætlunarinnar um heimsmarkmiðin. Sum sveitarfélög eru farin af stað í innleiðingarvinnunni og tel ég líklegt að Kópavogur sé kominn einna lengst í vinnunni. Mjög áhugavert og fræðandi var að fá kynningu frá þeim. Það var mjög ánægjulegt að finna þann áhuga og kraft sem kom fram á fundinum og hve margvísleg og góð verkefni er verið að vinna í sveitarfélögum landsins og í samstarfi sveitarfélaga.

Heimsmarkmiðin eru framkvæmdaáætlun í þágu mannkyns, jarðarinnar og hagsældar. Þau eru verkefni okkar hvers og eins sem einstaklinga og jafnframt samfélaganna sem við búum í.

Ágætu alþingismenn. Ég hvet ykkur til að fara inn á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga, finna ykkur erindin sem voru flutt á fundinum, taka svo þátt í þeirri vinnu sem fram undan er jafnt sem íbúar í samfélagi og kjörnir fulltrúar á Alþingi.