149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er tekið sérstaklega á vinnumarkaðnum og mikilvægi þess að sátt ríki á vinnumarkaði. Þar eru listuð markmið ríkisstjórnarinnar er lúta að t.d. keðjuábyrgð, kynbundnum launamun, félagslegu undirboði og ýmsu fleira. Vilji meiri hlutans er nefnilega alveg skýr í þessum efnum. Margt hefur nú þegar verið gert, til að mynda hækkun barnabóta til þeirra sem lægst hafa launin og annað er í farvatninu. Ríkisstjórnin sem situr í umboði Alþingis hefur sagt skýrt að svigrúm til skattalækkana verði nýtt til handa þeim sem lægst hafa launin.

Virðulegur forseti. Nú stendur yfir alvarleg deila á vinnumarkaði. Það eru tveir aðilar sem deila, annars vegar verkalýðshreyfingin og hins vegar atvinnulífið. Ríkisvaldið er ekki við samningaborðið þrátt fyrir yfirlýstan samstarfsvilja.

Virðulegur forseti. Það gengur ekki að Alþingi, okkur hér 63 þjóðkjörnum fulltrúum sem eigum eingöngu að fylgja lögum og okkar sannfæringu, sé hótað. Það er hroki.