149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:27]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir nánast hvert orð sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði hér áðan. Við erum að vinna sameiginlega að breytingu og endurskoðun á stjórnarskrá. Það hefur verið hólfað skipulega niður hvernig hæstv. forsætisráðherra hefur séð þetta fyrir og unnið með okkar ágæta starfsmanni sem hefur leitt þessa vinnu af mikilli elju, hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur.

Ég get ekki betur séð en að við höfum virkilega sterkan vilja til að láta hlutina ganga upp. Við getum ekki flanað að neinu. Vilji þjóðarinnar er skýr, ákallið var fyrst og síðast aðallega um að við viljum fá auðlindaákvæðið, við viljum fá auðlindirnar okkar inn í stjórnarskrá. Við viljum að það sé hafið yfir allan vafa að auðlindirnar eru okkar, þjóðarinnar. Það er bara einn liður í því og það er nákvæmlega eitt af atriðunum í þeim kafla í stjórnarskrá sem við erum akkúrat að vinna að núna og markmiðið er að verði sett fyrir þjóðina næst þegar verður kosið.

Ég væri ekki að segja satt ef ég segði ekki að ég hef góða tilfinningu fyrir því sem við erum að gera. Mér finnst við vera samstiga í því sem við erum að gera. Hins vegar er það frumvarp sem Píratar leggja fram af öðrum meiði. Ég ætla ekki að líta á það þannig að þeir séu ekki samt sem áður að vinna með okkur af heilum hug að því sem við erum að gera því að það er nákvæmlega það sem ég tel að þau séu að gera. Ég tel við séum öll að vinna vel, af heilum hug. Ég er bjartsýn og brosandi yfir því sem koma skal. Ég veit að við eigum eftir að fá nýja stjórnarskrá. Það er ekki spurningin um hvort heldur bara hvenær.