149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:44]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Umræða um stjórnarskrá er alltaf þörf og jafnvel nauðsynleg. Ég hef saknað þess aðeins í máli þeirra sem hér hafa tekið til máls að þau rifji upp með sjálfum sér hver setji stjórnarskrá í landinu. Hver er stjórnarskrárgjafinn? Stjórnarskrárgjafinn er nefnilega þjóðin. Kjósendur okkar eiga að setja okkur leikreglur. Við gleymum því stundum og förum að ræða um hvað hver og einn þingmaður vill, hvað hver og einn þingflokkur vill en það skiptir kannski ekki öllu máli. Aðalmálið er hvað þjóðin vill. Hvernig getum við búið þannig um hnútana að þjóðin hafi um þetta að segja? Í því ferli sem hér er í gangi eru gerðar athyglisverðar tilraunir til þess. Ég held að það sé mjög varasamt, eins og hefur komið hér fram, að þetta fari eftir því hvernig pólitískir vindar blása í þinginu hverju sinni hvernig stjórnarskrá á að vera eða ekki að vera. Ég held að það sé stórhættulegt.

Ég held að við eigum líka að vera alveg óhrædd við að tala um heildarendurskoðun eins og gert er ráð fyrir í áætlun hæstv. forsætisráðherra. Það felur ekkert endilega í sér einhverja kollsteypu. Það er hægt að endurskoða ýmsa hluti, breyta sumu og fallast á það, þegar búið er að skoða hlutina, að hér sé bara harla góð ákvæði að finna og að þeim þurfi ekki að breyta.

Ég held að við þurfum að passa okkur svolítið, hv. þingmenn, á að þykjast ekki eiga stjórnarskrána. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)