149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[15:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur fyrir styrka stjórn í nefndinni almennt þar sem mikill agi er á hlutum, en líka skilningur á því að fólk þarf að tjá sig og ræða og fara yfir mál. Ég vil nota tækifærið og nefna, þótt það sé kannski óskylt utanríkismálum, að því verði beint til formanna annarra nefnda að taka m.a. þingmannamál fyrir, ekki bara stjórnarmál. Það fer síðan eftir nefnd og síðan í sal hvort þau verða afgreidd. En það minnsta sem hægt er að gera er að formenn starfi af virðingu gagnvart öðrum nefndarmönnum, eins og hv. formaður núverandi utanríkismálanefndar. Ekki alltaf að þeir séu sammála en þar er unnið vel.

Varðandi þetta mál eyddum við einmitt dágóðum tíma í að fara yfir það, því að segjast verður eins og er að frá því að EFTA-ríkin gerðu á sínum tíma fríverslunarsamning við Tyrkland árið 1992, að mig minnir, er ýmislegt náttúrlega búið að gerast. Og líka varðandi þróun mála í Tyrklandi. Ég vil meina, og það er mín skoðun, að þróun mannréttindamála í Tyrklandi hafi ekki batnað á þeim tíma. Það hefur ekki horft til framfara þegar kemur að opnu, gegnsæju, frjálsu lýðræðisríki, þvert á móti hefur staða mála orðið snúnari fyrir lýðræðisöfl, fyrir dómstóla, fyrir kennara í Tyrklandi, fyrir opinbera starfsmenn sem og ýmsa aðra vegna þeirrar stjórnar sem þar er.

Þess vegna skrifa ég undir álitið með fyrirvara hvað varðar stöðu mannréttindamála en ég er ekki á móti því að samningurinn verði samþykktur. Ég vil draga það fram að ég tel einmitt að leiðin til að koma þjóðum út úr ólýðræðislegum farvegi sé að tala við þær, ekki að einangra þær, frjáls viðskipti séu, verslun, þjónusta og frjáls flutningur. Ég held einmitt að meiri samskipti, frelsið, stuðli að lýðræðislegu frelsi, að mannréttindi verði frekar virt, að þjóðir geti ekki einangrað sig, lokað sig frá umheiminum haldandi það að hið sjáandi auga annars staðar frá komi ekki auga á þau mannréttindabrot sem eru innan landsteina þeirra.

Það er ekki spurning að fríverslunarsamningar, þó að ég telji náttúrlega ekki spurningu að hagfelldara sé fyrir ríki heimsins að vera meira í bandalögum, hvort sem við ræðum um Evrópusambandið eða aðrar þjóðir, þá sýnir það sig að aukin samskipti á sviði verslunar, viðskipta, líka varnarmála, öll slík skref hafa leitt af sér aukin mannréttindi, frelsi o.s.frv.

Við sjáum það líka — svo að ég haldi áfram og reyni að halda þræðinum hér — að síðan við gerðum þennan fríverslunarsamning 1992 við EFTA hafa orðið breytingar. En eins og ég segi, ekki í átt til aukinna mannréttinda, síður en svo. Þá var líka sett klásúla, sem hefur verið viðhaldið, um mannréttindamál. Hverju hefur það skilað? Hefur á fastafundum EFTA — ég spurði að því og fleiri innan nefndarinnar — verið farið yfir samninginn á samningstímanum? Hefur verið minnst á mannréttindamál? Nei, það hefur ekki verið gert. Það virðist vera til þess að friðþægja alla. Það eru bara setningar um mannréttindamál settar inn til að passa upp á það að við viljum stuðla að og hjálpa til við að efla mannréttindi sem mest, hvort sem er í Tyrklandi eða annars staðar. Slíkt er bara sett inn og lítið annað gert með það.

Þess vegna vil ég á árinu 2019 spyrja hvort við ættum ekki að innleiða önnur vinnubrögð, alla vega ræða að innleiða önnur vinnubrögð inn í fríverslunarsamninga, hvort sem það er við Tyrkland, Filippseyjar eða þau ríki sem eru ekki endilega mjög til fyrirmyndar varðandi stjórnarhætti í dag. Hvernig getum við stuðlað að því? Það hefur sýnt sig að við höfum rödd þegar kemur að því að tala fyrir lýðræði, berjast fyrir lýðræði og mannréttindum. Hvað getum við þá gert í þessu? Erum við það ofurseld þeim viðskiptahagsmunum sem hlut eiga að máli að við getum ekkert gert annað?

Ég ætla að vona að svo verði seint, að við látum bara samskipti við aðrar þjóðir litast af því hvaða viðskipti við höfum hverju sinni, þ.e. inn- og útflutningstekjur af samskiptum við þjóðirnar. Af því að það skiptir máli upp á hagsæld, velsæld, og farsæld þjóða að lýðræði sé sem mest. Þess vegna eigum við að nota öll tækifæri og það skilar sér síðan í viðskiptum. Það vita allir sem hafa fylgst með þróun mála á umliðnum árum og áratugum, að opnir markaðir og frelsi stuðlar að aukinni hagsæld einstaklinga, fólks og fyrirtækja. Þess vegna vil ég draga það fram.

Ég óska eftir því að utanríkisráðuneytið eigi þetta samtal við okkur, m.a. í nefndinni, hvernig við getum lagt aukna áherslu á mannréttindi. Við erum að gera það víða með ágætum á sumum stöðum, en mættum vera aktífari eða virkari á öðrum. Við höfum þessa rödd og við eigum að nýta okkur hana. Þess vegna vil ég sjá aðeins aðra nálgun, a.m.k. rædda, það er alla vega fyrsta skrefið þegar kemur að fríverslunarsamningum. Fyrir utan það að ég tel það mikilvægt.

Þetta er gert á forsendum EFTA-ríkjanna. Þar komum við inn með öðrum hætti, en það stendur hugsanlega til að fara í einhvers konar viðskiptasamning við önnur ríki, Bandaríkin Er ekki ástæða til að ræða ýmis mál? Vinur er sá sem til vamms segir. Og það er allt í lagi að ræða þau mál sem snerta mannréttindi, hvort sem það er í Bandaríkjunum eða við aðrar okkar vina- og bandalagsþjóðir í gegnum tíðina. Felst það í því að við ætlum ekki að halda áfram vestrænni samvinnu? Nei, það styrkir samvinnuna, styrkir lýðræðishugsjónina, að við getum talað opinskátt hvert við annað, þjóðir á milli þjóða, ekki síst sem hafa áratugalanga sögu í þá veru að hafa byggt upp frið og farsæld í Evrópu og á norðurhveli jarðar. Það á enginn að vera hræddur við það.

Fyrst við erum að tala um Bandaríkin vil ég undirstrika, af því að ég átti í orðaskiptum við forsætisráðherra hér í gær, að eitt er að hafa samráð við nefndina — og mér fannst hún vilja það þó að hægt sé að gagnrýna utanríkisráðherra fyrir ekki skýra stefnu hvað samráð varðar, svolítið dyntótt eftir því hvaða mál eru uppi á borðum hverju sinni. Það sem mér finnst ekki síður skipta máli, m.a. með áherslu á mannréttindaþáttinn, er að þegar við förum í svona víðtæka samninga sem geta haft áhrif á stöðu þjóðarinnar, bæði viðskiptalega en ekki síður varnarlega, hvernig litið sé á okkur sem þjóð, að við séum talsmenn mannréttinda o.s.frv. Og þá skiptir máli að byggt sé upp samráðsferli og að samningsviðmið séu ekki ákveðin eingöngu innan ráðuneytanna heldur sé reynt að koma með þau inn í þingið og láta þingið allt vinna saman að því undir forystu utanríkismálanefndar. Það er ekki bara út af því að ég hef mikið traust á forystumönnum nefndarinnar, heldur held ég einfaldlega að þingið geti gert ýmislegt þegar að svona hlutum kemur; að móta samningsmarkmið, reyna að finna sameiginlegan þráð sem tengist hagsmunum íslensku þjóðarinnar í fríverslunarsamningum eða annars konar samningum, hvort sem þeir eru viðskiptalegs eðlis, varnarlegs eðlis eða annars konar. Mér finnst mikilvægt og ítreka það að ekki verði bara samráð, stundum eins og punt en stundum aðeins meira.

Þegar verið er að skrifa og vinna að samningum verðum við að móta sameiginlega samningsmarkmið okkar. Það var reynt á sínum tíma og ég benti á það í því umdeilda máli þegar farið var út í að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Skoðanir voru skiptar í þinginu en sú ríkisstjórn sem var þá, 2009–2013, lagði upp í það ferli að utanríkismálanefnd var dregin mjög inn í málið og allir flokkar sem voru í nefndinni gátu sett fram skoðanir sínar og það var reynt að finna okkar sameiginlegu viðmið, hvernig hagsmunagæslu þjóðarinnar væri best mætt og gætt í slíkum samningaviðræðum. Þannig vil ég að fleiri mál verði unnin, þar með taldir fríverslunarsamningar.

Í þessu máli varðandi uppfærsluna á fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands, er ég samþykk því að hann verði fullgiltur, uppfærður, en ég bið þingheim og utanríkismálanefnd ekki síst, að huga að því hvernig við getum komið mannréttindamálum betur á framfæri. Við eigum ekki að nota sömu vinnubrögðin og 1992, hvað þá 1952, þegar kemur að gerð samninga. Reynum að uppfæra okkur í þessum efnum líka. En að öðru leyti var vinnan í nefndinni ljómandi góð og ég styð málið með þessum fyrirvara.