149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[16:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar aðallega að fjalla um mannréttindamál á Filippseyjum, en vil byrja á því að lýsa ánægju með það að hæstv. utanríkisráðherra hafi nýtt hvert tækifæri, eins og hann nefnir, til að gagnrýna stöðu mála þar í landi. Það er eitthvað sem íslenskir ráðamenn eiga að gera við ríki af þessu tagi. Við eigum að segja þeim til syndanna þegar ástæða er til.

Mig langar að ræða formálsorðin í fríverslunarsamningnum sem eru stöðluð fyrir samninga sem EFTA-ríkin gera þessa dagana, þar sem samningsaðilar árétta skuldbindingu sína að styðja við lýðræði, réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi. Ég hef verulegar áhyggjur af þessum orðum, að þau séu, eins og var nefnt fyrr í dag í umræðu um samninginn við Tyrkland, bara friðþæging, þau þjóni engum tilgangi öðrum en að láta okkur sem höfum áhyggjur af stöðu mála í þessum ríkjum líða betur. Það finnst mér t.d. endurspeglast í því að þegar kemur að viðskiptahlið þessara samninga þá setja samningsaðilar á stofn sameiginlega nefnd EFTA-ríkjanna og Filippseyja sem getur vísað ágreiningsmálum yfir í gerðardóm, en sá gerðardómur tekur bara á hinum eiginlegu efnisákvæðum samningsins, tekur bara á fríverslunarhlutanum en ekki formálsorðunum sem hljóta að vera grunnlæg undir þessum samningi. Til hvers erum við annars með þessi orð ef þau hafa ekkert vægi?

Annað sem vekur vissar áhyggjur er að þessi samningur hafi verið fullunninn áður en staða mála breyttist á Filippseyjum. Hann var undirritaður í apríl 2016, en Duterte tók við sem forseti í júní sama ár. Það hefði átt að setja af stað þvílíkar viðvörunarbjöllur að EFTA-ríkin hefðu átt að setjast niður og spyrja sig hvort þessi samningur væri tækur, hvort formálsorðin kölluðu ekki á það að samningurinn væri í það minnsta lagður til hliðar meðan dauðasveitir gengu um Filippseyjar og tóku af lífi m.a. pólitíska andstæðinga en gengu líka ansi hart fram gagnvart almennum borgurum á götum Manilla. Viðbragðsleysi EFTA-ríkjanna er kannski ekkert skrýtið vegna þess að skrifstofa EFTA heldur ekkert utan um þessi mál, það er enginn aðili sem vaktar það hvort þróun mannréttindamála sé í rétta eða ranga átt á hverjum tíma. Það er enginn hlutlægur mælikvarði lagður á það hvort þessi formálsorð fríverslunarsamninga milli EFTA-ríkjanna og hvaða ríkis sem er gefi tilefni til þess að vekja máls á stöðu mála á hverjum tíma. Annað gildir væntanlega með þau ákvæði samninganna sem snerta beinharða peninga. Þar er eftirlitsmekanisminn myndi ég halda nokkuð skýr og skilvirkur. Það er nú kannski endurspeglun á forgangsröðun sem er allt of algeng í alþjóðasamskiptum, hagsmunir auðmagns hafa sterka málsvara en mannréttindi eru öllu veikari, fá hér til málamynda sæti í formála frekar en með eiginlegum efnisákvæðum.

Hér vék hæstv. ráðherra að framgöngu Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þar sem við tókum einmitt sæti á þeim tíma sem er liðinn frá því að skrifað var undir samninginn við Filippseyjar. Það er önnur breyting á stöðunni sem mér finnst ekki tekið nægjanlegt tillit til. Hvernig getum við gumað okkur af því að það hversu skýrt við kveðum að orði gegn Filippseyjum sé ein af ástæðum þess að við eigum fullt erindi inn í mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna — og þegar Ísland var að taka sæti var talið eins og þetta væri ein af ástæðunum fyrir því að við hefðum komið svo sterklega til álita — þegar við réttum á sama tíma þeim stjórnvöldum gulrótina sem felst í fríverslunarsamningi? Og hvað með stöðu okkar með fulltrúa í barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna þar sem við tókum sæti á síðasta ári sömuleiðis? Það er gráglettni örlaganna að þessi tillaga til þingsályktunar birtist í sömu viku og fréttist af því að neðri deild filippseyska þingsins hefði samþykkt að lækka sakhæfisaldur úr 15 árum í 12. Það vakti ekki mikla hrifningu hjá þeim sem berjast fyrir réttindum barna um allan heim. Og við, sem eitt af þeim ríkjum sem telja sig vera í framvarðasveit í þágu mannréttinda og réttinda barna, ættum að setja fótinn sterkt niður. Einn af þeim stöðum þar sem við getum gert það er samningur eins og þessi. Þó að hagsmunirnir séu ekki miklir, hér er talað um 30–100 milljónir á ári í útflutning til Filippseyja og 300–500 milljónir í innflutning, þá eru skilaboðin skýr af því að við erum þrátt fyrir stærð alltaf ein þjóð. Við erum eitt ríki með sömu stöðu á alþjóðasviðinu og margfalt stærri ríki og eigum að nýta okkur þá stöðu, þá rödd sem við getum haft jafn sterka og rödd hvaða stærri þjóðar sem er.

Hér hefur verið talað í dag í tengslum við aðra fríverslunarsamninga um að það séu ýmis grá svæði, skulum við segja. Hvar eigum við að draga línu í sandinn og hvar ekki? Til dæmis vorum við að fjalla um samning milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands, þar sem ástand mála er ekki sérstaklega gott heldur, en það er auðvelt að segja að sá samningur falli á grátt svæði þar sem um er að ræða endurnýjun á samningi sem þegar er í gildi. En hér erum við að tala um glænýjan samning við ríki sem, þegar blekið var rétt þornað á samningnum, fór að gerast bara síbrotamaður í mannréttindamálum. Þessi samningur er ekki á neinu gráu svæði. Ef við ætlum einhvern tímann að draga línu í sandinn þá er það hér. Hér höfum við tækifæri til að sýna að Ísland standi með mannréttindum og réttindum barna þó að það kosti nokkrar milljónir.