149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja.

539. mál
[16:19]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég get tekið undir flest sem kom fram í máli hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar. Ég gæti líka endurtekið ræðuna mína sem ég hélt áðan um fríverslunarsamning við Tyrkland. Ég ætla ekki að gera það. Ég tek hins vegar undir að þetta er í raun og veru að mínu mati enn verra af því að þetta er nýr samningur. Við erum bara að semja sérstaklega við Filippseyjar um fríverslun. Við erum ekki að endurnýja samning sem var til staðar. Við erum að fara að semja við harðstjóra sem notar nýstárlegar aðferðir við bæði löggæslu og fíkniefnameðferð, mjög hagkvæmar en hræðilegar.

Ég er talsmaður frjálsra viðskipta og ég held að þau stuðli að auknum samskiptum sem eru af hinu góða, skilningi milli ólíkra þjóða og geti jafnvel stuðlað að friði í heiminum.

En það er sífellt verið að tönnlast á sérstöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu. Ég held að við eigum að nýta okkur þá sérstöðu. Við hefðum á vettvangi EFTA átt að beita okkur fyrir því að þessi samningur yrði ekki gerður í ljósi aðstæðna á Filippseyjum, í staðinn fyrir að fylgja bara með eins og rollur. Notum þessa sérstöðu okkar og tökum skýra afstöðu með mannréttindum. Það er enginn að tala um viðskiptaþvinganir. Ég er einungis að benda á að við eigum að sleppa því að semja við harðstjóra.