149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:13]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Ég nýti kannski tækifærið til að spyrja hann spurningar sem ég fékk ekki svör við áðan, þar sem hann er 1. flutningsmaður málsins. Ég velti fyrir mér því sem ég hef kannski mestar áhyggjur af, sem er kostnaðurinn, og spyr hvort hann hafi lagst yfir það hvað þetta gæti kostað ríkissjóð.

Í öðru lagi langar mig að túlka niðurstöðu gærdagsins talsvert öðruvísi. Hér er talað eins og ekkert sé friðað þarna, og það er auðvitað rangt. Ég held að sú niðurstaða að færa innganginn og friða Fógetagarðinn sé góð, bæði fyrir okkur sem viljum halda í söguna og okkur — og ég tel mig með í báðum hópum — sem viljum byggja upp borgina og leyfa fyrirtækjum að velta upp spennandi verkefnum.

Ég ætla þá líka að nýta tækifærið til að spyrja þingmanninn, fyrst ég fékk ekki svar við því áðan, af því að það er auðvitað margt annað hér í kring, hvort hann vilji taka það allt eignarnámi, Hótel Borg, Klausturbar, Skólabrú eða aðra sambærilega starfsemi hér í kringum þinghúsið. Þetta hlýtur þá að snúast um ásýndina umhverfis þingið hér í hjarta Reykjavíkur en víða er sambærileg starfsemi við þá sem þarna mun rísa.

Hv. þingmaður ræddi síðan oft um lög um kirkjugarða. Ég kem kannski að því í seinna andsvari.