149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka síðasta ræðumanni og flutningsmönnum fyrir að flytja þetta mál. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þm. Ólafi Ísleifssyni um þá breytingu sem er greinilega að verða á viðhorfum Sjálfstæðisflokksins til kirkjunnar, til menningar og til þess arfs, þjóðararfs, sem við Íslendingar eigum. Það er í rauninni mjög merkilegt að sjá það þegar forystumenn flokksins koma hér upp og tala fyrir þeirri framkvæmd sem þarna er. Einhvern tímann, eins og þingmaður sagði réttilega, hefði manni brugðið jafnvel meira. En líklega er Sjálfstæðisflokkurinn að fara í þá vegferð að verða bara eins og allir hinir popúlistaflokkarnir hér á Alþingi.

Hv. þingmaður talar um mikilvægi þess að við varðveitum söguna og ásýnd og þessa merkilegu sögu sem þessi kirkjugarður hefur. Mig langar að spyrja hvort málið sé ekki aðeins stærra, hvort það tengist ekki öðru þingmáli sem hér hefur verið lagt fram sem snýr að skipulagsvaldinu við Alþingi, þ.e. að skilgreina Alþingisreitinn og næsta nágrenni þannig að Alþingi fari með skipulagsvaldið. Og jú, þá getum við haft einhver áhrif á byggingar eða framkvæmdir líkt og það sem hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir talaði um áðan, hún nefndi ákveðna bari og hótel, eitthvað slíkt. Hugsanlega mætti hafa áhrif á það ef Alþingi hefði það skipulagsvald sem það þyrfti að hafa yfir sínu nærumhverfi.

Það hefur sannarlega komið fram að borgin hefur ekki staðið sig árum saman. Hún hefur vanrækt algerlega það umhverfi sem Alþingi býr við. Við þurfum ekki annað en að horfa yfir Austurvöll til að sjá, ég ætla bara að leyfa mér að segja það, þetta ljóta tún sem Austurvöllur er, sem ekkert hefur verið hugsað um árum og áratugum saman, og einhvern grjóthnullung hér úti sem er bara til skammar fyrir Alþingi að sé fyrir utan húsið. Svo er Austurvöllinn sjálfur dimmur og illa umhirtur. Það er borgin sem þarna ber að sjálfsögðu ábyrgð. Alþingi þarf að taka völdin til sín á sínu nærumhverfi, þar á meðal einmitt þeim framkvæmdum sem hv. þingmenn eru hér að fjalla um.

Þannig að ég spyr þingmanninn: Er ekki málið í raun stærra en svo að það snúist eingöngu um þetta? Snýr það ekki líka að öllu umhverfi í kringum Alþingi og þeirri menningu og sögu sem hér er að finna við hvert fótmál?