149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[18:04]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira en það hefur verið fróðlegt að hlusta á umræðuna um þetta mál. Það hvessti ekki en kaldaði svolítið í umræðunni áðan þegar hv. þingmaður var í andsvörum við þingmann Sjálfstæðisflokksins. Ég fann frétt á ruv.is frá 21. nóvember 2013, og með leyfi forseta, ætla ég að vitna aðeins í þessi skrif:

„Forsætisnefnd Alþingis hefur kært ákvörðun Reykjavíkurborgar — að samþykkja deiliskipulag við Landssímareit í Kvosinni — til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Alþingi telur að með ákvörðun sinni hafi Reykjavíkurborg sýnt þjóðþingi Íslendinga og sögu landsins vanvirðingu.

Í kæru Alþingis er Reykjavíkurborg meðal annars sögð brjóta gegn 36. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir að Alþingi sé friðheilagt og að enginn megi raska friði þess né frelsi. Forsætisnefnd Alþingis segir að Reykjavíkurborg hafi borið að rannsaka þarfir og kröfur þingsins og hafa samráð við það þegar ákvörðun um deiliskipulagið var tekin.

Ekkert slíkt hafi verið gert, athugasemdir Alþingis hafi verið virtar að vettugi og ekkert gert til að koma til móts við sjónarmið þess. Með þeirri háttsemi telur Alþingi að borgin hafi sýnt menningarminjum, þjóðþingi Íslendinga og sögu landsins vanvirðingu og brotið gegn stjórnarskránni.“

Þetta er nú lengra í málinu, en ég hef ekki tíma til að fara yfir þetta.

Ég spyr þingmanninn: Hefur þingmaðurinn kynnt sér þetta mál í sögunni? Og þekkir hann þetta? Kemur þetta fram (Forseti hringir.) í máli hans?