151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

efnahagsmál.

[13:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Við höfum áður rætt stöðuna hvað varðar fjármögnun ríkissjóðs. Ég vil minna á í því samhengi að það sem við stöndum frammi fyrir í íslensku hagkerfi er útflutningsáfall. Á sama tíma höfum við hvatt til innlendrar eftirspurnar í trausti þess að þetta áfall sé tímabundið. Við höfum trú á því að útflutningsatvinnuvegir þjóðarinnar muni rétta úr kútnum. Með þeirri stefnu að við séum að tryggja ríkissjóði fjölbreytta fjármögnun, þ.e. bæði innlenda og erlenda fjármögnun, teljum við að við séum að styrkja greiðslujöfnuðinn úr ríkissjóði á sama tíma. Ferðaþjónustan mun rétta úr kútnum, ég hef trú á því. Þá munu útflutningstekjur aukast og þá teljum við að við séum vel sett með þessa fjölbreyttu fjármögnun sem er auðvitað ekki eingöngu erlend, bara svo það sé algjörlega skýrt. Hins vegar hef ég líka trú á því að sú peningastefna sem Seðlabankinn hefur beitt sér fyrir sé að virka. Eins og fram hefur komið í máli mínu við hv. þingmann hér áður þá vinnur Seðlabankinn með ríkissjóði að því að takmarka gengisáhættu af þessari fjármögnun enda á Seðlabankinn miklar gjaldeyriseignir.

Hv. þingmaður kom líka inn á atvinnuástandið í sinni fyrirspurn og það frumvarp sem liggur fyrir þinginu sem snýst um að tryggja Seðlabankanum heimild til að beita ákveðnum þjóðhagsvarúðartækjum. Ég vara við því að hv. þingmaður lesi of mikið í það, hv. þingmaður veit mætavel hvaða tækjum við höfum þurft að beita í fortíðinni til að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og það er mjög eðlilegt að við horfum til þess núna og lærum af þeirri reynslu sem við höfum öðlast á undanförnum áratug og tryggjum þær heimildir, sem eigi að síður eru mjög skýrt afmarkaðar í því frumvarpi sem hér liggur fyrir.

Hv. þingmaður spyr síðan sérstaklega um stöðu lífeyrissjóðanna. Ég held að ég geti sagt það alveg óhikað að ég mun að sjálfsögðu (Forseti hringir.) vinna að því markmiði að við séum ekki að skerða framtíðarstöðu lífeyrisþega (Forseti hringir.) en þar þurfum við að huga að fleiru en eingöngu fjármögnun ríkissjóðs og ég kem að því í seinna svari.