151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

færsla reksturs hjúkrunarheimila og réttindi starfs.

[13:33]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Á fundi hv. velferðarnefndar í morgun var samþykkt einróma yfirlýsing um þungar áhyggjur nefndarfólks yfir þeirri stöðu sem nú er komin upp vegna færslu á rekstri hjúkrunarheimila frá sveitarfélögum til ríkisins. Hv. velferðarnefnd hvetur í yfirlýsingu sinni stjórnvöld til að ganga þannig frá yfirfærslu rekstursins að starfsfólki verði tryggð áframhaldandi vinna og að réttindi þess og kjör séu áfram tryggð, líkt og fordæmi eru fyrir við sambærilega yfirfærslu, og að horft verði til þeirra lagareglna sem finna má í lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.

Jafnframt lýsti nefndin sig reiðubúna til að koma að lagasetningu með hraði fyrir næstu mánaðamót ef hæstv. heilbrigðisráðherra telur slíkt nauðsynlegt til að koma þessu máli í höfn svo sómi sé að þannig að tryggð verði hvort tveggja, störf starfsfólksins sem og réttindi þess.

Nú þegar þessi yfirlýsing liggur fyrir vil ég spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort Alþingi muni fá skýr svör fyrir vikulok um það hvort stjórnvöld séu reiðubúin til að tryggja störf og réttindi núverandi starfsfólks hjúkrunarheimilanna þriggja, þ.e. í Vestmannaeyjum og Fjarðabyggð, svo ekki þurfi að koma til þessarar sértæku lagasetningar. Það eru skýr fordæmi fyrir sambærilegu, það hefur verið gert við yfirfærslu eins og á Hornafirði og víðar.

Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra: Er hún reiðubúin að hlusta á nefndina og ganga frá samningum þannig að við tryggjum störf 150 manna og kvenna í Vestmannaeyjum og Fjarðarbyggð og að slík yfirlýsing verði ljós fyrir vikulok?