151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

færsla reksturs hjúkrunarheimila og réttindi starfsfólks.

[13:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og áhuga á þeim málum sem lúta að starfsemi hjúkrunarheimila í tveimur sveitarfélögum þar sem málin hafa því miður þróast þannig að sveitarfélögin hafa sagt sig frá rekstri hjúkrunarheimila. Í því felst auðvitað heilmikil ábyrgð vegna þess að mikilvægasta hlutverk okkar og verkefni hlýtur auðvitað að vera að tryggja samfellu í þjónustunni við íbúanna og það viljum við gera. En jafnframt er auðvitað, eins og fram hefur komið í umræðunni og ég hef tekið undir, um að ræða mikla hagsmuni þess starfsfólks sem um ræðir. Það væri mikilvægt fyrir þau sem sinna þessari þjónustu á hjúkrunarheimilum með beinum hætti að halda störfum sínum eins og nokkur er kostur. Ég vil benda á að Guðjón Hauksson, sem er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, hefur sagt, með leyfi forseta:

„… ég geri ekki ráða fyrir öðru en að við munum þurfa allar hendur á dekk í þessu og munum ráða allt þetta starfsfólk aftur til starfa hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.“

Þetta er það sem hann sagði í viðtali á RÚV á dögunum.

Ég tel, virðulegi forseti, að það sé ekki vænlegt til árangurs að fara í einhverjar lagasetningaræfingar núna undir þessum kringumstæðum heldur að leggja sig fram um, og þá er ég að tala um bæði umrædd sveitarfélög og ríkið, að leita leiða sem virða þá hagsmuni sem hér eru undir, bæði íbúanna og starfsfólksins, og gæta að réttaröryggi og meðalhófi.