151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

atvinnumál innflytjenda á Suðurnesjum.

[13:45]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Þetta var auðvitað þingmál sem hv. þingmaður flutti og þar af leiðandi á hv. þingmaður í rauninni frumkvæðið að því að ráðgjafarstofu innflytjenda var komið á fót á höfuðborgarsvæðinu, vegna þess að ráðherra ber að fylgja samþykktum Alþingis hverju sinni og þegar þingið felur ráðherra að gera eitthvað þá ber honum að gera það. Það er hins vegar svo að gagnvart því að víkka úrræðið eða þetta tilraunaverkefni út þá erum við ekki með fjárheimildir til þess í yfirstandandi fjárlögum þannig að það þyrfti að koma einhvers konar sérstök fjárveiting til þess. Þetta verkefni, ráðgjafarstofa innflytjenda á höfuðborgarsvæðinu, var fjármagnað sem tilraunaverkefni til að bregðast við Covid-faraldrinum. Ef það fengjust til þess auknar fjárveitingar hér á þingi þá væri ráðherrann ekki mótfallinn því en um leið skulum við líka vera meðvituð um að það er ágætt að leyfa aðeins meiri reynslu að komast á þetta úrræði á höfuðborgarsvæðinu. En komi til þess að við opnum annað slíkt úrræði, (Forseti hringir.) sem mér finnst spennandi, með lágþröskuldaþjónustu eins og þessari, finnst mér klárlega Reykjanesbær vera nærtækt næsta skref í því efni. Ég tek undir með hv. þingmanni um það.