151. löggjafarþing — 67. fundur,  16. mars 2021.

þjóðkirkjan.

587. mál
[16:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er ávallt gaman að hlusta á hann þó að ekki sé nema til að brjóta upp hversdagsleikann. Sömuleiðis verð ég að viðurkenna að mér finnst gaman að hlýða á hinn ýmsa fróðleik um söguna sem hv. þingmaður talar gjarnan um í pontu þegar kemur að trúmálum eða öllu heldur kristnum málum og það meina ég án nokkurrar kaldhæðni. Mér þykir það raunverulega áhugavert sem almennur áhugamaður um menningu og mannlegt samfélag. Þau sögulegu og menningarlegu gildi sem ég tel mig sjálfan tilheyra eru reyndar frelsi, jafnrétti og lýðræði. Ég ætla ekki að þreyta hv. þingmann með öllu því.

Við ágæta ræðu hv. þingmanns og ágæta efnislega gagnrýni á frumvarpið í sambandi við biskupsembættið og þess háttar fór ég að velta því fyrir mér hvort ekki væri rétt í raun og veru að taka flest út úr þessu frumvarpi. Í 2. gr. stendur t.d. að um stöðu þjóðkirkjunnar fari samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 62. gr. og 2. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, eitthvað sem er augljóst vegna þeirrar staðreyndar að þessi ákvæði eru til staðar til að byrja með. Sömuleiðis er þar ýmislegt að finna sem maður fær ekki betur séð en eigi ekki heima í löggjöf heldur eigi bara að vera hluti af því hvað kirkjan sjálf ákveður að gera. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það sé ekki löggjafans að segja trúfélögum fyrir verkum þegar kemur að því hvernig þau vilja haga helgihaldi sínu, hvað þá trúarboðskap sínum, og eflaust myndum við hv. þingmenn velja önnur ákvæði til að taka út úr frumvarpinu. En ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður líti svo á að frumvarpinu þurfi helst að breyta, til að það sé meira í samræmi við það sem hv. þingmaður telur eðlilegt, eða fyrst og fremst að fjarlægja það.